Fjarskiptafélögin þrjú á aðalmarkaði, Síminn, Nova og Sýn, hafa hækkað mest allra skráðra félaga síðastliðinn mánuð.
Öll önnur félög, að undanskildu fasteignafélaginu Kaldalón, hafa lækkað í viðskiptum síðastliðins mánaðar.
Hlutabréfaverð fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar hækkaði um rúm 2% í viðskiptum dagsins og hefur gengi félagsins nú hækkað um 29% síðastliðinn mánuð.
Gengi félagsins tók verulega við sér í síðustu viku eftir að greint var frá því að fjárfestingafélagið Skel hefði keypt um 10% hlut í félaginu.
Gengið í viðskiptunum var 22,4 krónur á hlut sem var í samræmi við dagslokagengi Sýnar skömmu fyrir viðskiptin en dagslokagengi Sýnar í dag var 29,4 krónur.
Á sama tíma hefur hlutabréfaverð Símans tekið við sér en gengi fjarskiptafélagsins hefur nú hækkað um 6,5% síðastliðinn mánuð og tæplega 10% á árinu.
Dagslokagengi Símans eftir 131 milljón króna viðskipti í dag var 14,6 krónur sem er hæsta gengi félagsins frá því að fjarskiptafélagið fór á markað.
Hlutabréfaverð fjarskiptafélagsins Nova hækkaði síðan um tæp 4% í 227 milljón króna viðskiptum í dag en gengi félagsins hefur nú hækkað um tæp 8% síðastliðinn mánuð.
Gengi Ölgerðarinnar og Oculis lækkaði um 1,6% í viðskiptum dagsins á meðan gengi Skeljar lækkaði um rúm 1%.
Engin önnur félög lækkuðu um meira en 1% í viðskiptum dagsins. Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,43% og var heildarvelta 2,5 milljarðar.