Danski viðskiptamiðilinn Børsen hefur tekið saman fjögur félög í dönsku Kauphöllinni sem hvetja fjárfesta til að fylgjast náið með á nýju ári.
DSV
Eftir langar samningaviðræður tókst danska flutningafyrirtækinu að kaupa allt hlutafé DB Schenker, dótturfyrirtæki þýska ríkisfyrirtækisins Deutsche Bahn. Um er að ræða ein stærstu fyrirtækjaviðskiptin í Evrópu í fyrra en DB Schenker, sem sérhæfir sig í vörustjórnun (e. logistics), var metið á ríflega 14 milljarða evra.
Endanlegt kaupverð DSV var um 100 milljarðar danskra króna eða því sem nemur um 1.931 milljarði íslenskra króna á gengi dagsins.
Samkvæmt Børsen hefur hlutabréfaverð DSV aldrei fylgt venjulegum markaðslögmálum en virði félagsins hefur aukist gríðarlega með samrunum og yfirtökum síðastliðin ár.
Á einum áratug hefur DSV farið úr því að vera lítið danskt flutningafyrirtæki í að vera eitt stærsta flutningafyrirtæki heims.
Áætlað er að samrunanum við DB Schenker ljúki á fyrsta ársfjórðungi og búast greiningaraðilar við að tekjur DSV muni aukast gríðarlega í kjölfarið.
Hins vegar hefur gengi DSV í hæstu hæðum og er ljóst að fjárfestar eru að búast við miklum hagnaðarauka í ár. Gengi félagsins hefur hækkað um tæp 29% síðastliðið ár.
Vestas
Samkvæmt könnun Børsen meðal 1.300 fjárfesta í ársbyrjun 2024 töldu langflestir að vindmylluframleiðandinn Vestas yrði einn af hástökkvurum í dönsku kauphöllinni í fyrra.
Hlutabréfaverð félagsins hrundi hins vegar á árinu og lækkaði um 54%.
Í ágúst greindi fyrirtækið frá stórri reiknivillu tveimur dögum áður en uppgjör annars ársfjórðungs birtist.
Reiknivillan sýndi frá um 100 milljóna evra skekkju á kostnaði við þjónustu á vindmyllum fyrirtækisins. Félagið skilaði 230 milljóna evra tapi á fjórðungnum sem samsvarar um 35 milljörðum íslenskra króna.
Samkvæmt Børsen hefur þjónustuhlið rekstursins verið gullgæs félagsins sem gerir samninga til þrjátíu ára við vindmyllukaupendur.
Hlutabréfaverð félagsins hefur aldrei verið lægra og segir Børsen það vel þess virði að fylgjast með því hvort vindmyllurisinn nái að rétta úr kútnum í ár.
Torm
Olíuflutningafélagið Torm hefur verið á miklu flugi í dönsku kauphöllinni en félagið skilaði um 700% ávöxtum frá ársbyrjun 2022 fram að síðasta sumri.
Hagnaður félagsins jókst gríðarlega er flutningsgjöld hækkuðu til muna á tímabilinu meðal annars vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
Hins vegar hefur gengi og tekjur félagsins tekið dýfu á síðustu mánuðum og lækkað um 46% síðastliðna sex mánuði.
Børsen hvetur fjárfesta til að hafa augun á flutningsverðum og fylgjast með Baltic Clean Tanker-vísitölunni sem ætti að gefa vísbendingar um hvort Torm nái vopnum sínum á árinu.
ChemoMetec
Danska fyrirtækið ChemoMetec, sem Börkur Arnviðarson stofnaði, er fjórða félagið sem Børsen segir fjárfestum að fylgjast með á þessu ári. Fyrirtækið framleiðir mælitæki fyrir landbúnaðar-, líftækni og lyfjafyrirtæki.
Félagið var skráð í dönsku kauphöllina árið 2016 en árið 2014 var hægt að kaupa hlut í félaginu á 3,15 danskar krónur. Gengið stendur í 497 dönskum krónum þegar þetta er skrifað.
Vöxtur og hagnaður félagsins hefur ekki verið í samræmi við væntingar fjárfesta segir Børsen og fór gengið niður í um 282 danskar krónur um mitt ár í fyrra.
Gengið hefur hækkað um 70% síðan þá uppfærði félagið afkomuspá sína í desember sem hefur gefið fjárfestum von um að árið verði hagfellt hjá félaginu. Børsen hvetur fjárfesta til að fylgjast náið með félaginu í ár.
Framleiðsluvörur fyrirtækisins voru meðal annars notaðar við þróun á bóluefni AstraZeneca og þrefaldaðist virði félagsins frá tímabilinu 2019 til seinni hluta árs 2020.
Börkur og Inga Dóra Sigurðardóttir, eiginkona hans, seldu stóran eignarhlut í félaginu árið 2020 og er Börkur ekki meðal stærstu hluthafa félagsins samkvæmt hluthafalista.