Danski við­skipta­miðilinn Børsen hefur tekið saman fjögur félög í dönsku Kaup­höllinni sem hvetja fjár­festa til að fylgjast náið með á nýju ári.

DSV

Eftir langar samninga­viðræður tókst danska flutninga­fyrir­tækinu að kaupa allt hluta­fé DB Schen­ker, dóttur­fyrir­tæki þýska ríkis­fyrir­tækisins Deutsche Bahn. Um er að ræða ein stærstu fyrir­tækja­við­skiptin í Evrópu í fyrra en DB Schen­ker, sem sér­hæfir sig í vöru­stjórnun (e. logistics), var metið á ríf­lega 14 milljarða evra.

Endan­legt kaup­verð DSV var um 100 milljarðar danskra króna eða því sem nemur um 1.931 milljarði ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Sam­kvæmt Børsen hefur hluta­bréfa­verð DSV aldrei fylgt venju­legum markaðslög­málum en virði félagsins hefur aukist gríðar­lega með sam­runum og yfir­tökum síðastliðin ár.

Á einum ára­tug hefur DSV farið úr því að vera lítið danskt flutninga­fyrir­tæki í að vera eitt stærsta flutninga­fyrir­tæki heims.

Áætlað er að sam­runanum við DB Schen­ker ljúki á fyrsta árs­fjórðungi og búast greiningaraðilar við að tekjur DSV muni aukast gríðar­lega í kjölfarið.

Hins vegar hefur gengi DSV í hæstu hæðum og er ljóst að fjár­festar eru að búast við miklum hagnaðar­auka í ár. Gengi félagsins hefur hækkað um tæp 29% síðastliðið ár.

Vestas

Sam­kvæmt könnun Børsen meðal 1.300 fjár­festa í árs­byrjun 2024 töldu lang­flestir að vind­myllu­fram­leiðandinn Vestas yrði einn af hástökkvurum í dönsku kaup­höllinni í fyrra.

Hluta­bréfa­verð félagsins hrundi hins vegar á árinu og lækkaði um 54%.

Í ágúst greindi fyrir­tækið frá stórri reikni­villu tveimur dögum áður en upp­gjör annars árs­fjórðungs birtist.

Reikni­villan sýndi frá um 100 milljóna evra skekkju á kostnaði við þjónustu á vind­myllum fyrir­tækisins. Félagið skilaði 230 milljóna evra tapi á fjórðungnum sem sam­svarar um 35 milljörðum ís­lenskra króna.

Sam­kvæmt Børsen hefur þjónustu­hlið rekstursins verið gull­gæs félagsins sem gerir samninga til þrjátíu ára við vind­myllu­kaup­endur.

Hluta­bréfa­verð félagsins hefur aldrei verið lægra og segir Børsen það vel þess virði að fylgjast með því hvort vind­myllu­risinn nái að rétta úr kútnum í ár.

Torm

Olíu­flutningafélagið Torm hefur verið á miklu flugi í dönsku kaup­höllinni en félagið skilaði um 700% ávöxtum frá árs­byrjun 2022 fram að síðasta sumri.

Hagnaður félagsins jókst gríðar­lega er flutnings­gjöld hækkuðu til muna á tíma­bilinu meðal annars vegna inn­rásar Rússa í Úkraínu.

Hins vegar hefur gengi og tekjur félagsins tekið dýfu á síðustu mánuðum og lækkað um 46% síðastliðna sex mánuði.

Børsen hvetur fjár­festa til að hafa augun á flutnings­verðum og fylgjast með Baltic Clean Tan­ker-vísitölunni sem ætti að gefa vís­bendingar um hvort Torm nái vopnum sínum á árinu.

Che­mo­Metec

Danska fyrir­tækið Che­mo­Metec, sem Börkur Arn­viðar­son stofnaði, er fjórða félagið sem Børsen segir fjár­festum að fylgjast með á þessu ári. Fyrir­tækið fram­leiðir mælitæki fyrir land­búnaðar-, líftækni og lyfja­fyrir­tæki.

Félagið var skráð í dönsku kaup­höllina árið 2016 en árið 2014 var hægt að kaupa hlut í félaginu á 3,15 danskar krónur. Gengið stendur í 497 dönskum krónum þegar þetta er skrifað.

Vöxtur og hagnaður félagsins hefur ekki verið í samræmi við væntingar fjár­festa segir Børsen og fór gengið niður í um 282 danskar krónur um mitt ár í fyrra.

Gengið hefur hækkað um 70% síðan þá upp­færði félagið af­komu­spá sína í desember sem hefur gefið fjár­festum von um að árið verði hag­fellt hjá félaginu. Børsen hvetur fjár­festa til að fylgjast náið með félaginu í ár.

Fram­leiðslu­vörur fyrir­tækisins voru meðal annars notaðar við þróun á bólu­efni AstraZene­ca og þre­faldaðist virði félagsins frá tíma­bilinu 2019 til seinni hluta árs 2020.

Börkur og Inga Dóra Sigurðar­dóttir, eigin­kona hans, seldu stóran eignar­hlut í félaginu árið 2020 og er Börkur ekki meðal stærstu hlut­hafa félagsins sam­kvæmt hlut­haf­alista.