Verktakafyrirtækið Þjótandi, sem staðsett er í Rangárþingi ytra og fæst við snjómokstur, jarðvinnu, vegagerð og aðra jarðvinnu sem tengist mannvirkjagerð, hagnaðist um milljarð króna í fyrra.

Til samanburðar hagnaðist félagið um 695 milljónir króna árið áður. Frá og með árinu 2015 hefur það samtals hagnast um rúmlega fjóra milljarða króna.

Tekjur verktakafyrirtækisins námu rúmlega 3,3 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um 38% frá fyrra ári. Í takt við aukna veltu jukust ársverk félagsins um 6 á milli ára og námu 62 talsins.

Í ársreikningi segir að verkefnastaða ársins 2025 sé góð og framtíðarhorfur félagsins góðar. Ætlar félagið að taka þátt í útboðum til að styrkja verkefnastöðuna enn frekar.

Félagið fjárfesti 150 milljónum króna í Laxey ehf. á árinu, félagi sem byggir upp landeldi á laxi í Vestmannaeyjum. Eignir Þjótandi námu 5,1 milljarði króna í lok síðasta árs. Eigið fé nam rúmum 4,2 milljörðum króna í lok árs.

Stjórn félagsins lagði til við aðalfund að 50 milljónir króna verði greiddar í arð til hluthafa á yfirstandandi ári vegna síðasta árs. Ólafur Einarsson og Steinunn Birna Svavarsdóttir eiga hvor um sig helmingshlut í verktakafyrirtækinu.

Lykiltölur / Þjótandi

2024 2023
Rekstrartekjur 3.312 2.393
Eignir 5.063 3.913
Eigið fé 4.211 3.231
Hagnaður 1.005 695
- fjárhæðir í milljónum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.