Vísisjóðurinn Frumtak 2 tapaði 4.057 milljónum króna í fyrra, en þar af voru 3.927 milljónir króna vegna gangvirðisbreytinga á eignarhlut sjóðsins í hátæknifyrirtækinu Controlant.
Til samanburðar tapaði sjóðurinn 1,9 milljörðum árið 2023 en hagnaðist um 2,5 milljarða árið 2022 og um 6 milljarða árið 2021.
Frumtak 2 lauk 5 milljarða króna fjármögnun í ársbyrjun 2015. Stærsta eign sjóðsins hefur verið eignarhlutur í Controlant en vísisjóðurinn leiddi hlutafjáraukningu Controlant sem tilkynnt var um í ársbyrjun 2016. Sjóðurinn var stærsti einstaki hluthafi Controlant í árslok 2023 með 7,9% hlut.
Gengi óskráðra hlutabréfa Controlant margfaldaðist á árunum 2020-2022 sem má að stórum hluta rekja til þess að félagið spilaði lykilhlutverk við dreifingu á Covid-bóluefnum fyrir Pfizer.
Tekjuspár félagsins lækkuðu hins vegar umtalsvert á árunum 2023 og 2024 m.a. þar sem Covid-verkefni félagsins drógust saman mun fyrr en gert var ráð fyrir. Hátæknifyrirtækið tilkynnti um þrjár hópuppsagnir á síðustu tveimur árum.
Controlant lauk 35 milljóna dala fjármögnun í nóvember síðastliðnum en þar af var hlutafjáraukning upp á 25 milljónir dala eða um 3,3 milljarða króna. Áskriftargengið í hlutafjáraukningunni var 30 krónur á hlut. Til samanburðar var áskriftarverð í hlutafjáraukningu félagsins í árslok 2023 105 krónur á hlut.
Frumtak 2 fjárfesti í Controlant fyrir 160 milljónir króna í fyrra og á í dag 6,2% hlut í hátæknifyrirtækinu.
Á meðfylgjandi töflu má sjá þróun uppgefins gengis hlutabréfa Controlant í árshlutauppgjörum Sjóvár og VÍS, sem fjárfestu í Controlant árið 2020.
Kaptio metið á 3 milljarða við sölu Frumtaks
Eignir Frumtaks 2, sem er að mestu í eigu lífeyrissjóða, námu 8,4 milljörðum króna í árslok 2024. Meðal annarra félaga í eignasafni sjóðsins eru Sidekick Health, Meniga, Activity Stream, Arctic Trucks International, Data Dwell og Tulipop.
Frumtak 2 seldi allan 33% eignarhlut sinn í hugbúnaðarfyrirtækinu Kaptio ehf. á árinu 2024 fyrir um 876 milljónir króna. Áréttað er að endanlegt söluverð eignarhlutarins verði gerður upp á árinu 2025 og því liggi endanlegur söluhagnaður ekki fyrir í ársreikningi 2024.
Framtakssjóðurinn VEX II leiddi fjárfestingu í samtals um 70% hlut í Kaptio. Í ársreikningi VEX II, kemur fram að sjóðurinn hafi keypt 49,6% hlut í Kaptio fyrir um 1,5 milljarða króna. Ætla má því að hugbúnaðarfyrirtækið, sem hefur að aðalstarfssemi að þróa og selja bókunarhugbúnað í áskrift fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, hafi verið metið á ríflega 3 milljarða króna í viðskiptunum.