Íslenska sprotafyrirtækið Love Synthesizers áætlar að hefja fjöldaframleiðslu á hljóðgervi félagsins, sem ber heitið First LOVE, á seinasta ársfjórðungi þessa árs með afhendingu fyrstu eintaka á fyrsta ársfjórðungi 2026.

Love Synthesizers segir að þetta verði líklega fyrsta íslenska fjöldaframleidda hljóðfærið fyrir alþjóðlegan markað.

Félagið kynnti fyrst hljóðfærið í byrjun maí í fyrra í Tónastöðinni áður en farið var með það til Berlínar á Superbooth, stærstu rafhljóðfærasýningu Evrópu. Þar vann fyrirtækið verðlaun fyrir bestu nýsköpunina hjá Sonic State, einum helsta veffjölmiðli rafhljóðfæra.

Love Synthesizers hafa þróað, hannað og smíðað þennan FM hljóðgervil með myndrænu snertiskjáviðmóti, takkastýringum og ýmsum hljóðmótunareiginleikum. Kári Halldórsson, stofnandi Love Synthesiers, byrjaði þá að gera tilraunir með FM hljóðmótun og snertiskjáviðmót sumarið 2021.

Þann 3. maí nk. verður hljóðfærið afhjúpað í plötubúðinni Space Odyssey við Bergstaðastræti 4. Þar verður bæði kynning og tóndæmi ásamt forsölukynningu þar sem hljóðfærið býðst á sérstöku forsöluverði.

„LOVE Synthinn er sérlega nettur, passar í lítinn bakpoka, hefur innbyggðan spilara, 4x4 live looper eða upptökumöguleika, rafhlöðumöguleika og heyrnatólsútgang. Þannig er auðvelt að ferðast og skapa tónlist nær hvar sem er,“ segir í tilkynningu.