Samkvæmt svissneska bankanum UBS urðu rúmlega 379 þúsund einstaklingar milljónamæringar í Bandaríkjunum á síðasta ári. Hátt í 23,8 milljónamæringar búa í Bandaríkjunum og jókst tala þeirra árið 2024 um 1,5%.

Á vef CNBC segir að flestir milljónamæringar búi í Bandaríkjunum en í öðru sæti situr Kína með 6,3 milljónir manna og jókst hlutfall þeirra þar í landi um 2,3% á síðasta ári. Hlutfallslega var aukningin mest í Tyrklandi, með 8,4% aukningu, eða 87.000.

Sú aukning sem sást í Bandaríkjunum átti sér rætur að rekja til arðbærs árs á Wall Street ásamt stöðugum gjaldmiðli en fyrstu sex mánuðir þessa árs hafa hins vegar verið erfiðir. Viðskiptastríð Donalds Trumps og lægðin á markaðnum hefur lækkað virði gjaldmiðilsins um 9%.

Rúmlega 40% milljónamæringa í heiminum eru búsettir í Bandaríkjunum en meirihluti auðsins er hins vegar staðsettur í Lúxemborg og Sviss. Í báðum löndunum er talið að einn af hverjum sjö fullorðnum einstaklingum sé milljónamæringur.

Fjöldi milljónamæringa á heimsvísu jókst þá um meira en 684.000 upp í 60 milljónir einstaklinga og var það að miklu leyti vegna hækkandi fasteignaverðs. Vöxturinn var þó misjafn eftir löndum en Japanir misstu til að mynda 33.000 milljónamæringa árið 2024.