Gríðarleg gróska er í flóknum skuldabréfavafningum vestanhafs um þessar mundir og hafa stóru fjárfestingabankarnir verið að setja saman alls kyns skuldir og lán með nýstárlegum hætti.
Fyrr í þessum mánuði seldi Goldman Sachs hlutdeildarskírteini að andvirði 475 milljónir í svokallaðan ABS-vafning (e. public asset-backed securitization) en um er að ræða skuldabréf sem eru tryggð með lánum sem bankinn veitir sjóðstjórum til að brúa bilið meðan sjóðir sækja fjármagn frá fjárfestum.
Um er að ræða fyrsta skuldabréfavafning sinnar tegundar en samkvæmt The Wall Street Journal er um að ræða arðbæra afurð sem fjárfestingabankarnir geta nýtt sér meðan þeir auka lánveitingar til fjárfestingafyrirtækja.
Rétt er að taka fram að skuldabréfavafningur er fjármálagerningur sem hefur það að markmiði að mæta greiðslufallsáhættu sem útlánaaðili stendur frammi fyrir vegna greiðslufalls mótaðila.
Samkvæmt WSJ endurspeglar ABS í raun tvær sviðsmyndir sem hafa verið að þróast á fjármálamörkuðum. Stórir einkafjárfestar og fjárfestingasjóðir eru að færast ofar í goggunarröð bankanna og þurfa þeir fjármagn með meiri hraða en áður. Bankarnir eru síðan sem fyrr að aðlaga sig að þessu viðskiptaumhverfi.
Samkvæmt bankastarfsmönnum sem WSJ ræddi við munu ABS-samningar hjálpa þeim að þjóna viðskiptavinum sínum á öruggan hátt meðan bankinn tekur háar þóknanir fyrir þjónustuna.
Það er þó vert að nefna að auðfengið fé með háum þóknunum hjá fjárfestingabanka hefur oftar en einu sinni verið undanfari bólu á markaði.
Efasemdamenn segja þessa nýju afleiðu í raun ekki ósvipuð þeim skuldabréfavafningum (e. collateralized debt obligation, CDO) sem áttu stóran þátt í efnahagshruninu árið 2008.
Svokallaðir gervivafningar (e. synthetic collateralized debt obligation), sem er eins konar blanda af skuldabréfavafningi og skuldatryggingu (e. credit default swap), spilaði þar einnig rullu en slíkir vafningar voru eitt vinsælasta form skuldaafleiðna fyrir hrun.
Samkvæmt WSJ er veltan með ABS og aðrar nýstárlegar skuldaafleiður voða lítil um þessar mundir en engu að síður eru þau að flækja viðskipti banka (seljenda) og fjárfesta (kaupenda) töluvert og eiga greinendur, eftirlitsaðilar og aðrir erfitt með að skilja afleiðurnar sem eru að ganga kaupum og sölum.
„Það er gaumgæfileg skoðun í gangi á möguleikanum að þessi einkaviðskipti geti smitað bankakerfið í heild,“ segir Roy Choudhury, framkvæmdastjóri Boston Consulting Group, í samtali við WSJ en hann hefur verið að sinna ráðgjöf í þessum afleiðuviðskiptum.