Hleðslustöðvar fyrir rafbíla verða aðgengilegar á 50 mílna fresti meðfram þjóðvegum samkvæmt reglugerð sem að ríkisstjórn Biden setti fram í síðastliðinni viku. Ákvörðunin er hluti af stefnu Biden-stjórnarinnar um að hvetja til víðtækrar notkunar á rafbílum en stjórnin hefur nú þegar sett þá stefnu að helmingur seldra nýrra bíla í Bandaríkjunum verði rafknúnir fyrir árið 2030. Á síðasta ári undirritaði Biden innviðalöggjöf sem snýr meðal annars að því að veita ríkjum 7,5 milljarða dollara styrk til uppbyggingar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla. NY-Times greinir frá.

Samkvæmt reglugerðinni verður ríkjum gert að útvega að minnsta kosti fjögur svokölluð DirectCurrent hraðhleðslutæki á hverri hleðslustöð en með þeim geta margir ökumenn hlaðið samtímis. Þar að auki verður hleðslustöðvum gert að nota farsímaforrit sem veitir neytendum aðgang að rauntímaupplýsingum um verðlagningu og notkunarstöðu hleðslustöðvanna.

Pete Buttigieg, samgönguráðherra Bandaríkjanna, segir reglugerðina hvetjandi fyrir fyrirtæki til að bjóða upp á staðlaða aðstöðu sem rúmar allar gerðir rafbíla en nú í dag eru margar hleðslustöðvar aðeins með hleðsluatæki sem henta Tesla ökutækjum.

Sala á rafbílum tvöfaldaðist í Bandaríkjunum á síðasta ári og eru vísbendingar um að hún muni tvöfaldast aftur á þessu ári. Sala á rafbílum nemur nú 4,6% af nýjum bílum í Bandaríkjunum.