Störfum í Bandaríkjunum fjölgaði um 151 þúsund í febrúar, samkvæmt bandarísku vinnumálastofnuninni. Mun það vera nokkuð minna en spár gerðu ráð fyrir en áætlað var að störfum hefði fjölgað um 160 þúsund.
Atvinnuleysi mældist 4,1 prósent í febrúar, en greinendur höfðu gert ráð fyrir 4% atvinnuleysi. Fjöldi opinberra starfa dróst saman um 10 þúsund í febrúar, sem gætu verið fyrstu merki um áhrif DOGE-verkefnis Elon Musk sem snýr í stutu máli að því að fækka opinberum störfum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að hann hefði frestað álagningu tolla á vörur frá Kanada og Mexíkó til 2. apríl. Því verði áfram unnið eftir USMCA (United States-Mexico-Canada Agreement) fríverslunarsamningnum.
Þá hafa embættismenn innan Hvíta hússins gefið í skyn að frestunin gæti varað enn lengur ef Kanada og Mexíkó tekst að draga úr smygli á fentanýli til Bandaríkjanna. 20% tollar á vörur frá Kína eru þó enn í gildi.
Trump tilkynnti um nýja tolla á vörur frá Kanada, Mexíkó og Kína á mánudaginn sl. Tollarnir tóku gildi daginn eftir, 4. mars.
Í kjölfarið lækkuðu hlutabréf í verði víðs vegar um heiminn. Bandarískir hlutabréfamarkaðir tóku verulega við sér eftir forsetakosningarnar en hækkanir síðustu fjögurra mánaða hafa nú þurrkast út.