„Uppbyggingin hefur krafist mikillar vinnu. Það var stór ákvörðun að byggja upp Alvotech á Íslandi. Ég tók þessa ákvörðun með hjartanu og sem Íslendingur þótt það væri engin þekking á svona starfsemi á Íslandi og gjaldeyrishöft í landinu þegar vegferð Alvotech hófst árið 2013,“ segir Róbert Wessman, forstjóri Alvotech, aðspurður út í ákvörðun hans á sínum tíma að stofna Alvotech á Íslandi.

Hann segir að byggst hafi upp einstakt félag hér á Íslandi, og eitt af innan við fimm slíkum í heiminum.

„Við höfum jafnframt þurft að uppfræða bandaríska markaðinn, þar sem ekkert annað félag af þessu tagi er skráð vestanhafs. Líftæknihliðstæður eru tiltölulega nýtt fyrirbæri í Bandaríkjunum, þótt þær hafi lengur verið til staðar í Evrópu. Fyrir fjárfesta tók það tíma að átta sig á því sem við erum að gera.“

Lítil velta hamlar þátttöku erlendra fjárfesta

Í sumar var greint frá hindrunum fyrir stóra erlenda hlutabréfasjóði að fjárfesta í Alvotech vegna lítillar veltu með bréf félagsins í Bandaríkjunum.

„Fjöldi bréfa í félaginu er frekar lítill í Bandaríkjunum. Margir sjóðir, sem vilja kaupa í félaginu, eru með takmarkanir á hversu mikið þeir mega kaupa miðað við daglega veltu. Ef viðskipti með bréf Alvotech eru aðeins nokkur hundruð milljónir króna á dag, eða minna, og sjóðir mega kaupa fyrir aðeins 10% af meðalveltu, þá er fjárhæðin oft of lítil fyrir þá til að taka stöðu.“

Róbert bætir við að áhugi erlendra fjárfesta sé til staðar, en nauðsynlegt sé að koma „snjóboltanum“ af stað.

„Við ætlum að vinna markvisst að því á næsta ári að efla bandaríska markaðinn. Þetta snýst um að fá fleiri erlenda fjárfesta inn og auka þannig veltuna. Með aukinni veltu skapast snjóboltaáhrif: takmarkanir á daglegum viðskiptum minnka, sem eykur viðskipti með bréf félagsins.“

Fjórða stoðin

Róbert segir að félagið gæti orðið fjórða stoðin í íslensku atvinnulífi, ekki sem atvinnugrein heldur sem eitt fyrirtæki.

„Þróunareiningin okkar, sem telur 300 starfsmenn, er orðin ein sú öflugasta í heiminum fyrir líftæknilyfjahliðstæður. Félagið er ekki aðeins verðmætasta fyrirtæki Íslands heldur hefur það byggt upp sterka tiltrú, sem er lykilatriði til áframhaldandi vaxtar.

Við störfum á markaði þar sem salan nemur yfir 1,5 billjónum dala, þar af eru um 40% líftæknilyf. Við erum eitt af um fimm fyrirtækjum í heimi í dag sem sérhæfa sig í líftæknilyfjahliðstæðum, sem veitir okkur einstaka sérstöðu.“

Nánar er rætt við Róbert í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.