Hugbúnaðarfyrirtækið Annata hagnaðist um einn og hálfan milljarð króna á síðasta ári og jókst hagnaður um 55% frá fyrra ári. Velta fyrirtækisins nam um 5,9 milljörðum króna og jókst um tæplega einn milljarð á milli ára.

EBITDA nam um tveimur milljörðum króna og áskriftartekjur af annata365 hugbúnaðarlausninni, sem er helsta vara félagsins, jukust um 40%. Annata er þó hvergi nærri hætt og hefur sett sér metnaðarfull markmið um að margfalda áskriftartekjurnar á næstu fjórum árum.

„Í febrúar kynnti ég til leiks áætlun sem gengur undir nafninu 4x4. Markmiðið er einfalt; að fjórfalda áskriftatekjur annata365 hugbúnaðarlausnarinnar okkar á næstu fjórum árum,“ segir Magnús Norðdahl, forstjóri Annata. Á síðasta ári námu áskriftartekjur Annata um 10 milljónum dala, eða sem nemur um einum og hálfum milljarði króna. Ef markmið fyrirtækisins ganga eftir munu áskriftartekjur því hækka um 30 milljónir dala og vera um 40 milljónir dala að fjórum árum liðnum.

„Við erum þegar komin á fulla ferð og áætlunin fer vel af stað. Starfsfólk, eigendur og aðrir sem koma að fyrirtækinu eru mjög spennt fyrir þessari vegferð. Í grunninn er markmiðið þó ekki aðalmálið heldur vegferðin. Ef við náum að þrefalda áskriftartekjur á fjórum árum er það samt góður árangur og svo getur vel verið að það gangi enn betur hjá okkur en markmiðið segir til um,“ segir Magnús. Með nokkurri einföldun snúist áætlunin um að Annata verði í mun meiri mæli hugbúnaðarhús heldur en ráðgjafarhús.

Magnús segir mikið kapp lagt á að uppfylla hina svokölluðu 40% reglu. „Ef tekjuvaxtaprósentan er lögð saman við EBITDA vaxtarprósentuna og útkoman er meira en 40% er fyrirtækið eitt af þeim sem er leiðandi á markaðnum,“ útskýrir hann. „Við leggjum mikla áherslu á að uppfylla þessa reglu enda viljum við ekki vera upp á hluthafa eða lánastofnanir komin til að geta fjárfest ríkulega í lausninni. Það er tiltölulega fjárfrekt að vera stöðugt að þróa og bæta hugbúnaðarlausnina og væri erfitt að vera sífellt að sannfæra fjárfesta eða lánastofnanir að leggja áhættufé í það. Fyrirtækið þarf því að vera með sterkt sjóðstreymi, góðan hagnað og stigvaxandi vöxt til að geta staðið undir þessum fjárfestingum sjálft.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.