Stjórn Kviku banka hefur samþykkt að veita fjórum starfsmönnum samstæðu bankans kauprétti að samtals um 5 milljónum hluta í félaginu og hefur nú verið gengið frá samningum þar að lútandi.

Í tilkynningu Kviku til Kauphallarinnar segir að kaupréttunum sé úthlutað sem frestuðum hluta ráðningarkaupauka sem voru veittir á bilinu desember 2022 til apríl 2023.

Meðal starfsmanna samstæðunnar sem fengu úthlutað kaupréttum eru Birkir Jóhanns­son, sem tók við sem for­stjóri TM trygginga í lok síðasta árs. Hann fékk úthlutað kaup­réttum að 1,9 milljónum hluta í Kviku.

Ei­ríkur Magnús Jes­son, sem tók við stöðu fram­kvæmda­stjóra fjár­mála­sviðs í lok síðasta árs, fékk út­hlutað kaup­rétti á um 1,4 milljónum hluta í bankanum.

Sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu er inn­lausnar­verð kaup­réttanna er 20,107 kr. á hlut en það jafn­gildir meðal­gengi í við­skiptum með hluti í fé­laginu í Kaup­höllinni síðustu tíu við­skipta­daga fyrir undir­ritun kaup­réttar­samninga.

Dagsloka­gengi Kviku í gær var 15,5 krónur.

Bankinn á­ætlar að heildar­kostnaður vegna kaup­rétta­samninganna sé 14,6 milljónir króna samkvæmt reiknilíkani Black-Sholes.

Heildar­fjöldi út­gefinna kaup­rétta sam­kvæmt framan­greindri út­gáfu nemur um 0,11% hluta­fjár í fé­laginu.