Stjórn Kviku banka hefur samþykkt að veita fjórum starfsmönnum samstæðu bankans kauprétti að samtals um 5 milljónum hluta í félaginu og hefur nú verið gengið frá samningum þar að lútandi.
Í tilkynningu Kviku til Kauphallarinnar segir að kaupréttunum sé úthlutað sem frestuðum hluta ráðningarkaupauka sem voru veittir á bilinu desember 2022 til apríl 2023.
Meðal starfsmanna samstæðunnar sem fengu úthlutað kaupréttum eru Birkir Jóhannsson, sem tók við sem forstjóri TM trygginga í lok síðasta árs. Hann fékk úthlutað kaupréttum að 1,9 milljónum hluta í Kviku.
Eiríkur Magnús Jesson, sem tók við stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs í lok síðasta árs, fékk úthlutað kauprétti á um 1,4 milljónum hluta í bankanum.
Samkvæmt Kauphallartilkynningu er innlausnarverð kaupréttanna er 20,107 kr. á hlut en það jafngildir meðalgengi í viðskiptum með hluti í félaginu í Kauphöllinni síðustu tíu viðskiptadaga fyrir undirritun kaupréttarsamninga.
Dagslokagengi Kviku í gær var 15,5 krónur.
Bankinn áætlar að heildarkostnaður vegna kaupréttasamninganna sé 14,6 milljónir króna samkvæmt reiknilíkani Black-Sholes.
Heildarfjöldi útgefinna kauprétta samkvæmt framangreindri útgáfu nemur um 0,11% hlutafjár í félaginu.