Stjórn Alvotech ákvað í gær að veita ákveðnum stjórnarmönnum kauprétti fyrir alls 109.524 hlutum í Alvotech. Kaupréttirnir voru veittir fjórum óháðum stjórnarmönnum, samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.
„Kaupréttarsamningunum er ætlað að samtvinna hagsmuni stjórnarmanna og Alvotech til lengri tíma. Skilmálar samninganna eru í samræmi við kaupréttarkerfi sem samþykkt var á aðalfundi Alvotech þann 6. júní 2023 og í samræmi við starfskjarastefnu félagsins sem samþykkt var á sama aðalfundi,“ segir þar enn fremur.
Meginefni kaupréttarsamninganna er eftirfarandi:
- Veittur er kaupréttur á hlutabréfum á viðmiðunarverðinu 8.40 Bandaríkjadalir á hlut. (Kaupréttargengið er ákvarðað út frá skráðu gengi hlutabréfa Alvotech (Nasdaq:ALVO) sem birt var á vefnum nasdaq.com við opnun markaðarins í gær.)
- Ávinnslutími er þrjú ár frá úthlutun kaupréttanna, þ.e. þriðjungur kaupréttanna virkjast á hverju ári sem liðið er frá úthlutun. Viðmiðunarverð ræðst af gengi hlutabréfa Alvotech á aðalfundardegi, þegar úthlutunin átti sér stað.
- Rétthafi þarf að sitja í stjórn Alvotech til að geta nýtt kaupréttinn.
Um er að ræða fyrstu úthlutun Alvotech á kaupréttum.
Heildarfjöldi útistandandi kauprétta sem Alvotech hefur veitt er því jafn þeim fjölda kauprétta sem veittir voru stjórnarmönnum þann 6. júní 2023.