Innganga Atvinnurekendadeildar Félags kvenna í atvinnulífinu (A-FKA) í Atvinnufjelagið (AFJ) var samþykkt á aðalfundi hið síðarnefnda félags í dag.
A-FKA er vettvangur kvenna, innan Félags kvenna í atvinnulífinu, sem eiga og reka fyrirtæki en í A-FKA eru um 380 lítil eða meðalstór fyrirtæki. Deildin hefur það að markmiði að standa vörð um hagsmuni félagskvenna sem eru í fyrirtækjarekstri sem og að standa fyrir fræðslufundum.
„Það er mikið fagnaðarefni að fá A-FKA til liðs við Atvinnufjelagið. Konur í atvinnurekstri eru gríðarlega stór hluti af litlum og meðalstórum fyrirtækjum og sameinuð náum við meiri og skjótari árangri í þeim mörgu og brýnu hagsmunamálum okkar sem bíða úrlausnar,“ segir Sigmar Vilhjálmsson, formaður Atvinnufjelagsins.
Atvinnufjelagið var stofnað 31. október á síðasta ári með það að leiðarljósi að standa vörð um hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Aðalfundur félagsins var haldinn í Grósku síðdegis í dag en þar var Sigmar Vilhjálmsson endurkjörinn formaður félagsins. Auk Sigmars voru eftirfarandi aðilar kjörnir í stjórn: Aðalheiður V. Jacobsen (A-FKA), Elísabet Jónsdóttir (AFJ), Gunnar Ingi Arnarsson (AFJ), Helga Guðrún Jónasdóttir, (AFJ), Ingibjörg Valdimarsdóttir (A-FKA) og Ómar Þorgils Pálmason (AFJ). Þá voru í varastjórn kjörin Jónina Bjartmarz (A-FKA), Snorri Marteinsson (AFJ) og Arna Þorsteinsdóttir (AFJ)