Bandarísk ríkis­skulda­bréf, sem lengi hafa verið talin ein öruggasta fjár­festing í heiminum, eru nú undir veru­legum þrýstingi.

Vaxandi óvissa í kjölfar nýrra inn­flutnings­tolla Donalds Trumps, ásamt truflunum í flóknum fjár­mála­við­skiptum vogunar­sjóða, hefur grafið undan trausti fjár­festa á skulda­bréfum ríkis­sjóðs Bandaríkjanna, svo­kallaðri „öruggri höfn“ alþjóð­legra fjár­festa.

Ávöxtunar­krafa 10 ára bandarískra ríkis­skulda­bréfa hækkaði í 4,51% í morgun áður en hún lækkaði til baka í 4,37%.

Krafan á ríkis­skulda­bréf til 30 ára fór stutt­lega yfir 5% sem hæsta gildi frá heims­far­aldrinum. Til saman­burðar var ávöxtunin undir 3,9% í upp­hafi vikunnar.

„Söluþrýstingurinn kann að boða þáttaskil þar sem bandarísk skuldabréf missa stöðu sína sem öruggasti skuldabréfamarkaður heims,“ segir Ben Wiltshire, vaxtasérfræðingur hjá Citi, í samtali við Financial Times.

Selja verðmæt bréf til að standa undir tryggingar­kröfum

Einn helsti áhrifavaldurinn að baki söluþrýstingnum er svonefnd „basis-viðskipti“ sem eru útbreidd meðal vogunarsjóða.

Viðskiptin fela í sér að fjárfestar reyna að hagnast á smáum verðmun milli verðbréfa, í þessu tilviki bandarískra ríkisskuldabréfa og afleiðusamninga sem spegla markaðsverð þeirra, t.d. svonefndra skuldabréfaafleiðna (e. Treasury futures).

Í slíkum viðskiptum kaupa sjóðir raunveruleg skuldabréf en selja samhliða samninga um framtíðarverð þeirra með von um að verðmunurinn milli bréfanna og samninganna lækki með tímanum.

Hugmyndin er að verðmunurinn („basis“) á milli bréfsins og samningsins verði minni með tímanum, og þá getur fjárfestirinn innleyst hagnað þegar hann lokar báðum stöðum samtímis.

Þessi viðskipti eru yfirleitt fjármögnuð með mikilli skuldsetningu til að hámarka ávöxtun en þar liggur vandinn. Þegar markaðurinn verður óstöðugur breytist verðmunurinn óvænt en tiltölulega lítil breyting í verði getur þá haft margföld áhrif vegna skuldsetningarinnar og sjóðirnir neyðast til að selja bréf sín til að standa undir tryggingakröfum, sem ýtir enn frekar undir verðfall.

„Það sem gerist núna er að margir sjóðir þurfa að losa um stöður á jafnvel verðmætum bréfum einfaldlega til að halda rekstrinum gangandi,“ útskýrir Nick Lawson, forstjóri fjárfestingarfélagsins Ocean Wall. „Þetta veldur kerfislegri spennu í fjármálakerfinu í heild sinni.“

Inngrip frá seðlabankanum?

Fjárfestar og markaðsaðilar rifja nú upp sambærilegar aðstæður frá mars 2020, þegar gera þurfti upp fjölda svipaðra viðskipta sem ýtti undir skyndilegt lausafjárþurrðarástand og neyddi Seðlabankann til að hefja umfangsmikil skuldabréfakaup.

Nú er aftur rætt um hvort gripið verði til neyðaraðgerða, þar á meðal vaxtalækkunar eða markaðsinngripa.

„Staðan er orðin svo viðkvæm að spurt er hvort Seðla­bankinn þurfi að bregðast við til að koma á stöðug­leika. Markaðir eru þegar farnir að verð­leggja auknar líkur á neyðar­vaxtalækkun,“ segir Jim Reid, sér­fræðingur hjá Deutsche Bank.

Slök eftirspurn í nýlegu uppboði bandarískra þriggja ára skuldabréfa hefur einnig aukið áhyggjur.

Sumir telja að ríki á borð við Kína séu líkleg til að „losa sig við“ bandarísk skuldabréf sem svar við viðskiptastefnu Trumps.

Slíkt gæti aukið framboð, lækkað verðið enn frekar og hækkað ávöxtunarkröfur.

„Markaðurinn óttast að ríki á borð við Kína noti ríkis­skulda­bréf sem við­skipta­vopn. Þetta ýtir undir vaxandi ávöxtunar­kröfur og aukinn þrýsting á markaðinn,“ segir Grace Tam, aðal­ráðgjafi BNP Pari­bas í Hong Kong, við FT.

Seðlabanki Bandaríkjanna stendur nú frammi fyrir erfiðu vali. Aðgerðarleysi getur valdið enn meiri sveiflum, en íhlutun til að bjarga vogunarsjóðum gæti aftur á móti hvatt til enn frekari áhættutöku í framtíðinni.