Eftirspurn eftir megrunarlyfjum frá danska lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk hefur gert fyrirtækið heimsfrægt og hjálpað því að hagnast um fleiri milljarða dala undanfarin ár en Novo Nordisk greindi nýlega frá 17,8 milljarða dala hagnaði.
Vöxturinn hefur hjálpað fyrirtækinu en hann hefur einnig hjálpað danska efnahagnum. Fréttamiðillinn BBC tók nýlega fyrir nokkur dæmi þar sem minnst er á sprengju í nýsköpun og húsnæðislánum í landinu.
Danski bærinn Kalundborg, í rúmlega klukkutíma lestarferð frá Kaupmannahöfn, hefði talist ólíklegur staður fyrir gríðarlega mikla uppbyggingu fyrir nokkrum árum. Í dag er þetta 17 þúsund manna bæjarfélag hins vegar að upplifa mestu fjárfestingu í sögu landsins.
Kalundborg er einnig þar sem Novo Nordisk framleiðir lyfin Wegovy, Semaglutide og Ozempic en verksmiðjan þar, sem er rúmlega 1,6 milljónir fermetra að stærð, sér heiminum fyrir rúmlega helming af öllu insúlíni.
Hátt í 8,6 milljarða dala fjárfesting mun renna til bæjarins á næstu árum og munu 1.250 ný störf bætast við verksmiðjuna. Ofan á það verða um þrjú þúsund byggingarstarfsmenn starfandi á svæðinu.
Martin Damm, bæjarstjóri Kalundborg, segir þumalputtaregluna vera að þegar eitt starf skapast innan greinarinnar muni það leiða af sér þrjú störf utan þess.
Hann bendir á ýmsar sögur úr efnahagslífi borgarinnar og segir að á einni bensínstöð þurfi eigandinn að steikja 30 kíló af svínakjöti á hverjum morgni til að búa til samlokur sem iðnaðarmenn bæjarins halda mikið upp á.
Sumar verslanir hafa séð fimmfalda aukningu í sölu en ein skyndibitaverslun seldi 17.500 pylsur á rúmum mánuði til hungraðra byggingarverktaka sem voru að leita sér að hádegisverði.
Tveir þriðju af öllum hagvexti Danmerkur koma frá aðeins fjórum sveitarfélögum en allir eiga það sameiginlegt að hýsa Novo Nordisk. Kalundborg er eitt af þeim en bærinn sá 27% vöxt árið 2022 og samkvæmt bæjarstjóranum er atvinnuleysi með því lægsta á svæðinu.