Dótturfélag sænska rafhlöðuframleiðandans Northvolt, sem átti að sjá um stækkun á risaverksmiðju félagsins í norðurhluta Svíþjóðar, hefur sótt um gjaldþrotaskipti.
Samkvæmt The Wall Street Journal hefur verið hætt við frekari framkvæmdir í Svíþjóð á meðan rafhlöðuframleiðandinn fer í endurskipulagningu vegna dræmrar sölu á rafbílum.
Viðskiptablaðið greindi frá því í sumar að Northvolt væri að stefna að 3,4 milljarða dala fjármögnun frá Evrópusambandinu og bönkum á borð við JP Morgan Chase til að auka framleiðslugetuna í Svíþjóð.
Fyriraðeins þremur árum síðan sagði Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar að smábærinn Skellefteå, þar sem verksmiðja Northvolt er stödd, væri borg framtíðarinnar.
Rafhlöðuverksmiðjan átti að vera „flaggskip grænu iðnbyltingarinnar“ í Evrópu og koma íbúum álfunnar undan því að þurfa kaupa rafhlöður frá Kína eða olíu frá Miðausturlöndum.
Kínverjar stjórna stórum hluta af birgðakeðjunni þegar kemur að rafhlöðum, bæði hvað varðar málma og samsetningu.
Þetta hefur verið áhyggjuefni fyrir vestræn ríki sem eyða milljörðum dala í skattaafslætti, lán og styrki til fyrirtækja til að koma sínum eigin birgðakeðjum af stað. Bandaríkin hafa verið í svipuðum herferðum frá árinu 2022.
Afturkallaðar pantanir og hópuppsagnir
Northvolt var stofnað árið 2016 í Svíþjóð en félagið stefndi að því að opna rafhlöðuverksmiðjur í Þýskalandi og Montreal í Kanada.
Fjárfestingabanki Evrópusambandsins hefur nú lagt nærri einum milljarði til verkefnisins í Svíþjóð á meðan stjórnvöld í Kanada og Québec settu um 2 milljarða dali í að aðstoða framgang verksmiðjunnar þar í landi.
Evrópskir bílaframleiðendur hafa einnig verið að dæla fé í fyrirtækið sem ætlaði að framleiða „grænustu rafhlöðu í heimi.“
Í sumar ákvað BMW hins vegar að afturkalla 2,2 milljarða dala pöntun sína hjá Northvolt.
Í síðasta mánuði ákvað Volvo einnig að falla frá stefnu sinni um að allir bílar fyrirtækisins verði eingöngu hreinir rafbílar frá og með árinu 2030.
Í sama mánuði greindi Northvolt frá 1.600 manna hópuppsögn hjá félaginu en það samsvarar um 20% af öllu starfsliði félagsins.