Reykjavík Napólí ehf., félag utan um rekstur Flatey Pizza og Neó Pizza, hagnaðist um 39 milljónir króna á árinu 2023 samanborið við 34 milljóna hagnað árið áður. Tekjur jukust um fjórðung á milli ára, námu 834 milljónum króna og hafa aukist um 70% frá 2021.

Fyrsti Flatey-staðurinn opnaði á Grandagarði síðsumars 2017. Í dag eru staðirnir fimm talsins, auk þess sem Neó Pizza, systurstaður Flateyjar, hefur opnað tvö útibú, á Hafnartorgi Gallery og Laugavegi 81 þar sem Eldsmiðjan var áður til húsa.

Félagið hefur skilað stöðugum hagnaði frá stofnun, að frátöldu Covid-árinu 2021 þegar félagið tapaði rétt tæpri milljón króna.

Eignir Reykjavík Napólí námu 275 milljónum króna í lok árs 2023 og jukust um 170 milljónir milli ára. Aukið verðmæti eigna skýrist af kaupum félagsins á 100% eignarhlut í Gelato ehf., félagi utan um ísbúðir Gaeta Gelato, í lok árs 2023, sem metinn er á 128 milljónir.

Sumarið 2024 opnaði þriðja ísbúðin við Laugaveg 23 þar sem Macland var áður til húsa. Gelato var rekið með 11,5 milljóna króna hagnaði á árinu 2023 og var með eigið fé upp á 44 milljónir í lok árs.

Stofnendur félagsins eru æskuvinirnir Haukur Már Gestsson, Brynjar Guðjónsson, Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson, en Haukur er framkvæmdastjóri Reykjavík-Napólí. Þeir félagar eiga hvor um sig 23% hlut í félaginu og Sveinn Rafn Eiðsson, forstjóri Lagardère Travel Retail Iceland, á eftirstandandi 8% hlut.

Nánar er fjallað um Reykjavík Napólí í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.