Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um könnun sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins meðal stjórnenda íslenskra iðnfyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins í febrúar og mars á þessu ári.
Stjórnendur iðnfyrirtækjanna voru m.a. spurðir að því hvernig fjöldi starfsmanna þeirra fyrirtækja muni koma til með að þróast á næstu 12 mánuðum. Mun fleiri töldu að þeim muni fjölga en fækka á tímabilinu. 33% stjórnenda sögðu að starfsmönnum muni fjölga og er það viðlíka hlutfall og mældist í fyrra. Einnig sögðu nú um 11% að starfsmönnum muni fækka á tímabilinu en það er einnig viðlíka hlutfall og mældist í fyrra.
Aðspurðir sögðu um 41% stjórnenda að það væri skortur á starfsfólki í þeirra fyrirtæki núna. Nokkra lækkun má greina í því hlutfalli á milli ára þar sem 48% sögðu skort á starfsfólki vera viðvarandi á síðasta ári. Þá er athyglivert að hlutfall þeirra sem sögðu skort á starfsfólki er lægra nú en þeirra sem segja að nægt framboð sé af starfsfólki.
Stjórnendur voru einnig beðnir um að leggja mat á það hverskonar starfsfólk skortir helst og sögðu 60% að það væri iðnmenntað starfsfólk. Það er nokkuð hærra en var fyrir ári er 56% sögðu að það skorti iðnmenntað starfsfólk. Tæplega 20% nefndu vöntun á háskólamenntuðu starfsfólki en það hlutfall hefur farið hækkandi undanfarin tvö ár. Þá segja um 14% að það væri skortur á ófaglærðu starfsfólki og er það nokkuð lægra hlutfall en síðustu ár. 4% stjórnenda sögðu annað.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.