Brian Armstrong, stjórnarformaður Coinbase, einnar stærstu rafmyntakauphallar heims, greindi frá því í vikunni að stefnt væri að því að lækka rekstrargjöld um 25% á komandi ársfjórðungi.
Verður þetta meðal annars gert með því að fækka starfsfólki um 20%, sem þýðir að félagið mun segja upp 950 manns.
Síðasta sumar sagði Coinbase upp 1.100 manns, sem þýðir að á ríflega hálfu ári hefur starfsfólki fyrirtækisins fækkað úr tæplega 6.000 í 3.700.
Aðgerðirnar eru fyrst og síðast tilkomnar vegna mikils samdráttar á rafmyntamarkaði.