Verkfallsboðanir Eflingarfélaga í öryggisgæslu, þrifum og á hótelum voru samþykktar af félagsmönnum stéttarfélagsins en atkvæðagreiðslu lauk í dag. Um er að ræða ótímabundnar vinnustöðvanir sem allar hefjast klukkan 12:00 á hádegi þriðjudaginn 28. febrúar.
Framangreindar verkfallsboðanir ná m.a. til hótelkeðjanna Centerhotels og Keahótels, Securitas og Öryggismiðstöðvar Íslands auk ræstingafyrirtækja á borð við Sólar og Daga. Á kjörskrá voru 2.034 manns.
Auk framangreindra verkfallsboðana standa yfir verkföll hjá hótelum Íslandshótela, Berjaya og Edition-hótelinu annars vegar og hins vegar hjá starfsmönnum við vörubifreiðaakstur og olíudreifingu.
Forystufólk SA og Eflingar fundaði hjá ríkissáttasemjara um helgina en viðræðum var slitið í gær. SA ákvað í kjölfarið að hefja atkvæðagreiðslu um verkbann á félagsmenn Eflingar. Atkvæðagreiðslan hófst í hádeginu í dag og lýkur kl. 16 á miðvikudaginn.
Verði tillagan samþykkt myndi það þýði að félagsfólk Eflingar mætir ekki til starfa og launagreiðslur falla niður. Um yrði að ræða ótímabundið verkbann sem hefst hádegi á fimmtudaginn 2. mars.
Efling tilkynnti í dag að stéttarfélagið muni ekki greiða neina styrki úr vinnudeilusjóði til félagsfólks vegna verkbanns. „Kjósi atvinnurekandi að beita verkbanni gegn starfsfólki sínu er það alfarið á ábyrgð hans, ekki stéttarfélags,“ segir í tilkynningu Eflingar.
Stéttarfélagið sagði jafnframt að komi til verkbanns muni það kalla saman félagsfólk til víðtækra mótmælaaðgerða gegn þeim atvinnurekendum sem beita því.