Heimsmarkaðsverð á kaffi hefur tvöfaldast frá byrjun árs 2024 og ekki verið hærra í nærri fimm áratugi. Verðið hefur frá því í nóvember staðið í á bilinu 3-4 Bandaríkjadölum á pundið, eða sem nemur á bilinu 6,5-9 dölum á kílóið.

Til samanburðar var kaffiverð á heimsmarkaði á bilinu 1-2 Bandaríkjadalir á pundið árin áður.

Öfgar í veðri hafa leitt til uppskerubrests í stærstu ræktunarlöndunum.

Í Brasilíu, þar sem um 40% af kaffi heimsins er ræktað, hefur verið mikill þurrkur undanfarin ár og uppskeran verið undir meðaltali í nokkur ár í röð. Greinendur eru svartsýnir á að uppskeran taki við sér á þessu ári.

Í Víetnam, þar sem um 17% af kaffi heimsins er ræktað, hefur sömuleiðis verið mikill þurrkur en einnig alvarleg flóð á síðasta ári sem fylgdu fellibylnum Yagi. Á sama tíma og framboð á kaffi dregst saman hefur heimseftirspurn eftir kaffi stöðugt aukist á síðustu árum.

„Þetta lítur ekki vel út“

Ölgerðin er einn umfangsmesti innflytjandi á kaffi hér á landi. Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir að fyrirtækið hafi gert allt til að halda aftur af hækkunum. Á endanum sé þó erfitt að komast hjá því að verðhækkanir framleiðenda skili sér að einhverju leyti áfram til neytenda.

„Það verður ekki hjá því komist. Auðvitað er það á endanum verð frá framleiðanda og svo heimsmarkaðsverð sem stýrir langstærstum hluta verðlagningarinnar og það er ljóst að þróunin er ekki hagstæð fyrir neytandann,“ útskýrir Andri.

„Það sem við getum fyrst og fremst gert er að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda aftur af hækkunum. Við erum fyrsta stopp hjá birgjum áður en endursala fer fram til smásölu. Okkur hefur í þessu máli í besta falli tekist að fresta hækkunum og farið fram á skýrar og rökstuddar ástæður fyrir hækkunum. Hækkanirnar eru hins vegar mismiklar. Hreint kaffi hækkar þannig skiljanlega meira en t.d. kaffihylki sem innihalda hlutfallslega minna af hreinu kaffi,“ bætir Andri við.

Spurður út í þróun kaffiverðs á komandi misserum segir Andri erfitt að spá en horfurnar séu því miður ekki bjartar: „Út frá þeim gögnum sem við fáum um hrávöruverð þá lítur þetta ekki vel út.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.