Stór meirihluti bænda í eigendahópi Búsældar hafa samþykkt að selja eignarhlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska til Kaupfélags Skagfirðinga, samkvæmt frétt RÚV.
Tilkynnt var í júlí að Kaupfélag Skagfirðinga hefði náð samkomulagi um kaup á allt að 100% hlutafjár í Kjarnafæðis Norðlenska hf. Samkomlagið fól í sér að yfir 400 hluthafar Búsældar ehf., félags bænda sem er eigandi rúmlega 43% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska, myndu ákveða hver fyrir sig hvort þeir selji sína hluti.
Hluthafar í Búsæld höfðu til gærdagsins að taka afstöðu til sölunnar. Tæplega 85% hafa ákveðið að selja hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska en 13% hafa ekki tekið afstöðu enn. Í grein RÚV segir að örfáir bændur hafi ákveðið að halda hlut sínum í kjötvinnslunni.
„Það er rétt rúmlega 1% sem selur ekki. Svo er rúmlega hálft prósent sem ætlar að selja hluta og halda hluta eftir“, er haft eftir Gróu Jóhannsdóttur, formanni Búsældar.
Eiður Gunnlaugsson og Hreinn Gunnlaugsson, sem eiga hvor um sig 28% beinan hlut í Kjarnafæði Norðlenska, samþykktu að selja allan eignarhlut sinn til KS.