Um 85% sérfræðinga hjá ríkinu sjá tækifæri til hagræðingar á sínum vinnustað, og 86% eru hlynnt áformum um aukið hagræði í ríkisrekstri. Þetta er meðal þess sem lesa má úr könnun meðal félagsfólks Visku stéttarfélags sem fór fram dagana 3.-13. janúar. Alls svöruðu um 400 sérfræðingar könnuninni
„Starfsfólk stofnana upplifir að ekki sé hlustað á þeirra sjónarmið, þrátt fyrir dýrmæta innsýn. Flatur og ómarkviss niðurskurður hefur leitt til þess að álag er við þolmörk á mörgum stofnunum,“ segir í tilkynningu Visku.
Um 86% aðspurðra sérfræðinga hjá ríkinu eru hlynnt áformum nýrrar ríkisstjórnar um aukið hagræði í ríkisrekstri en þar af eru 45% mjög hlynnt og 41% frekar hlynnt.
Aðeins 41% aðspurðra telja að óhagræði hafi minnkað á síðustu árum þrátt fyrir fjölmörg tækifæri.
„Þetta bendir til þess að verulega hafi skort á samráð. Því er kallað eftir skýrri sýn og kjarki frá ríkisstjórninni til að eiga samráð við starfsfólk stofnana ríkisins um leiðir til úrbóta.“
Sem fyrr segir sjá 85% aðspurðra eitthvert svigrúm til hagræðingar á sínum vinnustað en mikill meirihluti eða 60% telur svigrúmið vera frekar eða mjög lítið. 24% meta það sem frekar eða mjög mikið.
Flestir svarendur sjá hagræðingartækifæri í tæknivæðingu og nútímaverkferlum eða 56%. 34–35% sjá tækifæri í innkaupum og öðrum rekstrarkostaði. Minni möguleikar eru taldir í húsnæðismálum (31%) og starfsmannahaldi (24%).