Stjórnvöld hafa sett sér markmið um full orkuskipti og kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Ísland verði þá óháð jarðefnaeldsneyti, fyrst ríkja. Framleiddar eru 20 teravattstundir (TWst) af raforku hérlendis á ári en samkvæmt útreikningum EFLU, Samorku og stærstu orkufyrirtækjanna þarf um 16 TWst að auki til að að ljúka orkuskiptum í öllum samgöngum. Átta TWst þarf svo til að standa undir vexti samfélagsins og atvinnulífsins, alls 24 TWst.
Þannig þarf að ríflega tvöfalda raforkuframleiðslu til að ná markmiðum um jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Til samanburðar er orkuvinnslugeta stærstu virkjunar landsins, Fljótsdalsstöðvar eða Kárahnjúka, 4,8 TWst á ári og því þyrfti fimm slíkar stöðvar til að svara fyrirséðri orkuþörf.
Í rammaáætlun er virkjunarkostum skipt í þrjá flokka; virkjunar-, bið- og verndarflokk. Alls eru 16 virkjunarkostir í orkunýtingarflokki samkvæmt rammaáætlun, þar af eru fjórar vatnsaflsvirkjanir, tíu jarðvarmavirkjanir og tvær vindorkuvirkjanir. Í biðflokki eru 17 virkjunarkostir, þar af þrettán vatnsaflsvirkjanir og fjórar jarðvarmavirkjanir. Þá eru 11 virkjanakostir í verndarflokki, þar af níu vatnsaflsvirkjanir og tvær jarðvarmavirkjanir.
Í greiningu Viðskiptaráðs frá því í febrúar 2023 kemur fram að uppsett afl virkjunarkosta í nýtingarflokki rammaáætlunar standi undir um 60% af orkunni sem til þarf í orkuskiptin ein og sér þar sem orkuvinnslugeta er 9,3 TWst á ári. Í biðflokki rammaáætlunar er óvissa með 8,1 TWst. Jafnvel þó að allir kostir í biðflokki endi í nýtingaflokk er ljóst að ófullnægð orkuþörf er að lágmarki 6,6 TWst.
Þá er mögulegt er að einhverjir virkjanakostir í biðflokki endi í verndunarflokki og verði aldrei virkjaðir auk þess sem sumir virkjanakostir útiloka hver annan. Þá bætist við að stór hluti jarðhitakosta verður nýttur til að viðhalda vinnslu í núverandi virkjunum og/eða til húshitunar en ekki til aukinnar raforkuframleiðslu.
„Ef miðað er við ferlið eins og það er nú tekur undirbúningur áður en leyfisveitingarferlið hefst minnst áratug, ferli leyfisveitinga að undirbúningi loknum getur tekið um fimm ár og þá taka við útboð og byggingaframkvæmdir sem geta tekið önnur fimm ár. Það þýðir að ef við tækjum ákvörðun í dag um að hefja slíkt ferli, við virkjunarkost sem ekki hefur þegar komið til skoðunar, myndi fyrsta megavatt virkjunarinnar líta dagsins ljós árið 2043,“ segir í greiningu Viðskiptaráðs.
Nánar er fjallað um leyfisveitingarferli virkjana í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.