Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, varaði í grein sem birtist í Viðskiptablaðinu á dögunum við orkuskorti og talaði um hindrun sem myndi auka á þann vanda; leyfisveitingarferli hins opinbera.
„Leyfisveitingarferli fyrir nýjar virkjanir er því miður gríðarlega þungt í vöfum og óskilvirkt, stofnanir sem eiga að sinna því virða t.a.m. ekki tímafresti og mikilvægi frekari orkuvinnslu fyrir samfélagið er ekki haft að leiðarljósi. Á sama tíma eru aðrar vestrænar þjóðir á þveröfugri leið, þar sem mikil áhersla er lögð á að einfalda leyfisveitingar fyrir virkjun grænnar orku,“ skrifaði Hörður.
Þegar ferli leyfisveitinga fyrir nýjar vatnsafls- og jarðhitavirkjanir er skoðað sést að það getur verið mjög flókið og tímafrekt frá upphafi til enda. Óska þarf eftir leyfi og umsögnum frá fjölda aðila og framkvæma ýmsar rannsóknir. Sömu stofnanir koma oft að á mismunandi stigum.
Tíminn sem fer í hvert og eitt skref er yfirleitt mældur í mánuðum auk þess sem umfjöllun um virkjunarkosti í rammaáætlun, hvort þeir lendi í nýtingar-, bið- eða verndarflokk, getur tekið mörg ár. Þó nokkur dæmi eru um að virkjanir hafi verið til umfjöllunar í á þriðja áratug.
Í svari Landsvirkjunar við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að lítið sem ekkert hafi verið gert til að stytta ferli leyfisveitinga í gegnum tíðina. Þvert á móti hafi ferlið lengst bæði með nýjum ferlum og leyfum auk þess sem kröfur hafa aukist og málsmeðferðartími lengst.
Gera megi ráð fyrir að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun sem tóku gildi árið 2011 hafi lengt ferlið um að minnsta kosti fjögur ár en þegar um umdeildari virkjunarkosti er að ræða, svo sem Hvammsvirkjun og Búrfellslund, megi gera ráð fyrir að það taki átta ár að fá endanlega niðurstöðu um í hvaða flokk þeir raðast. Vissulega sé hægt að vinna mikla undirbúningsvinnu á þeim tíma en hún nýtist aðeins ef virkjunarkostur raðast í nýtingarflokk.
Önnur lagabreyting sem skipti máli þegar kemur að leyfisveitingarferlinu séu lög um stjórn vatnamála sem tóku gildi árið 2011 en á grundvelli þeirra var fyrsta vatnaáætlun fyrir Ísland samþykkt í fyrra. Hafði það meðal annars áhrif á virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar, sem hafði verið í ferli frá árinu 2003.
Þá var lögum um rammaáætlun breytt í júní 2022 þannig að stækkanir á virkjunum þurfi ekki að fara í gegnum rammaáætlun, þar sem þær eru matskyldar, ef Orkustofnunin metur það sem svo að stækkunin raski ekki nýju svæði. Landsvirkjun hefur sótt um stækkun Sigöldustöðvar um eina vél en það tók Orkustofnun níu mánuði að komast að þeirri niðurstöðu að stækkunin heyri ekki undir rammaáætlun.
Óvissa er um nokkra virkjunarkosti Landsvirkjunar og má þar til að mynda nefna Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, sem hafa lengi verið í biðflokki. Tvívegis hefur verkefnisstjórn rammaáætlunar lagt til að kostirnir yrðu færðir í nýtingaflokk, fyrst árið 2011 og síðan árið 2016. Í bæði skiptin hefur Alþingi fært kostina aftur í biðflokk við afgreiðslu rammaáætlunar, fyrst árið 2013 og svo árið 2022.
Nánar er fjallað um leyfisveitingarferli virkjana í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.