Flugfélagið Avelo, sem stofnað var árið 2021, hefur tekið það að sér að gerast verktaki fyrir bandaríska útlendingaeftirlitið og flytur nú fólkið sem yfirvöld vísa úr landi til fangabúða í Suður-Ameríku.

Á vef WSJ er fjallað um Avelo en þar segir að flugfélagið hafi hingað til boðið upp á ódýrar flugferðir frá ríkjum eins og Connecticut, Kaliforníu og Flórída.

Frá og með næsta mánuði munu þrjár flugvélar á vegum flugfélagsins hins vegar hefja regluleg flug frá Mesa í Arizona til að flytja innflytjendur sem vísa á úr landi. Vélarnar verða allar málaðar hvítar og munu ekki bera vörumerki flugfélagsins.

Ákvörðun Avelo er sögð byggjast á efnahagslegum áskorunum sem flugfélagið glímir við og mun það starfa með undirdeild bandaríska útlendingaeftirlitsins, ICE Air, sem sérhæfir sig í brottflutningi ólöglegra innflytjenda.

Útlendingaeftirlitið hefur áður notast við flugfélög fyrir slík flug en hingað til hafa flest þeirra verið lítið þekkt meðal almennings. Eitt þeirra er GlobalX, sem hefur einnig flogið tónlistarmenn eins og Lady Gaga og Bad Bunny, en það félag sér um 70% af flugum ICE Air.

„Ég geri mér grein fyrir því að sumir gætu litið á þessa ákvörðun sem umdeilda en eftir ítarlegar umræður komumst við að þeirri niðurstöðu að þetta væri of verðmætt tækifæri til að nýta það ekki. Þetta mun hjálpa okkur fjárhagslega og veita okkur þann stöðugleika sem við þurfum til að halda rekstrinum gangandi,“ segir Andrew Levy, forstjóri Avelo.

Sérfræðingar innan geirans segja að gróðinn sé stór þáttur í löngun flugfélaga til að taka verkefnin að sér en flugfélög fá meðal annars tryggðar lágmarksgreiðslur í hverjum mánuði.