Qantas vinnur nú að því að setja sig í samband við viðskiptavini eftir netárás sem átti sér stað í fyrradag. Ástralska flugfélagið segist hafa fundið fyrir óvenjulega mikilli virkni í þjónustuveri sínu sem geymir gögn sex milljóna einstaklinga.

Reuters segir að Qantas hafi fljótlega áttað sig á að um netárás væri að ræða og hafi slökkt tafarlaust á kerfi þjónustuversins.

Qantas segist enn vera að rannsaka umfang árásarinnar en býst við því að umtalsvert magn gagna, þar á meðal nöfn, netföng og símanúmer, hafi verið stolið. Flugfélagið hefur þó fullvissað viðskiptavini um að kreditkortaupplýsingar voru ekki geymdar í hinu umrædda kerfi.

Árásin kemur aðeins nokkrum dögum eftir að bandaríska alríkislögreglan gaf út viðvörun um að tölvuþrjótar á vegum glæpahópsins Scattered Spider væru byrjaðir að herja á flugfélög.

Bandaríska flugfélagið Hawaiian Airlines og kanadíska flugfélagið WestJet hafa bæði orðið fyrir svipuðum netárásum síðustu tvær vikurnar.