Hlutabréfaverð bæði Play og Icelandair hafa hækkað í fyrstu viðskiptum í morgun en Icelandair birti farþegatölur fyrir nóvembermánuð í morgun.
Icelandair flutti yfir 300 þúsund farþega í nóvember, 6,4% fleiri en á sama tíma í fyrra. Þar af voru 34% farþega á leið til Íslands, 19% frá Íslandi, 41% ferðuðust um Ísland og 6% innan Íslands.
Það sem af er ári hefur Icelandair flutt 4,3 milljónir farþega, 8% fleiri en á sama tíma á síðasta ári.
Gengi Icelandair hefur hækkað um 1,5% í tæplega 100 milljón króna veltu í morgun á meðan Play hefur hækkað um 3% í örviðskiptum.
Hlutabréfaverð Icelandair hefur hækkað um rúm 12% síðastliðinn mánuð á meðan gengi Play hefur lækkað um rúm 5%.
Play birtir farþegatölur fyrir nóvember síðar í mánuðinum.