Icelandair leiddi hækkanir aðalmarkaði Kauphallarinnar er gengi félagsins fór upp um tæp 3% í 63 milljón króna veltu. Á sama tíma hækkaði gengi Play á First North markaðnum um tæp 3% í 15 milljón króna veltu.
Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur boðað til verkfalls á morgun, fimmtudaginn 14. desember, á milli kl. 4:00 og 10:00 en samkvæmt tilkynningu frá Icelandair mun vinnustöðvunin hafa áhrif á flugferðir um 8.300 farþega.
Flugumferðarstjórar hafa verið að höggva í íslensku flugfélögin með því að einblína á vinnustöðvun á aðflugsvæðinu FAXI sem hefur næstum bara áhrif á íslensku flugfélögin. Í gær þurfti að aflýsa 25 brottförum vegna vinnustöðvunar flugumferðastjóra en 23 þeirra voru á vegum Play eða Icelandair.
Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hækkaði um 2% í dag í 370 milljón króna veltu en gengi félagsins hefur verið á mikilli uppleið eftir uppgjör þriðja ársfjórðungs en útgerðarfyrirtækið hagnaðist um 9 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins.
Íslandsbanki hækkaði einnig um tæp 2% í 377 milljón króna veltu og var dagslokagengi bankans 108 krónur. Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur nú hækkað um 8% síðastliðinn mánuð en lækkað um 5% á árinu.
Brim leiddi lækkanir í Kauphöllinni og fór gengi félagsins niður um rúm 2% í 176 milljón króna veltu en hlutabréf í Brim hafa hækkað töluvert á síðustu vikum. Á síðastliðnum mánuði hefur gengi Brims hækkað um 20% þrátt fyrir lækkun síðustu þrjá viðskiptadaga.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,8% og var heildarvelta á markaði 3,2 milljarðar.