Icelandair leiddi hækkanir aðal­markaði Kaup­hallarinnar er gengi fé­lagsins fór upp um tæp 3% í 63 milljón króna veltu. Á sama tíma hækkaði gengi Play á First North markaðnum um tæp 3% í 15 milljón króna veltu.

Fé­lag ís­lenskra flug­um­ferðar­stjóra hefur boðað til verk­falls á morgun, fimmtu­daginn 14. desember, á milli kl. 4:00 og 10:00 en sam­kvæmt til­kynningu frá Icelandair mun vinnu­stöðvunin hafa á­hrif á flug­ferðir um 8.300 far­þega.

Flug­um­ferðar­stjórar hafa verið að höggva í ís­lensku flug­fé­lögin með því að ein­blína á vinnu­stöðvun á að­flug­svæðinu FAXI sem hefur næstum bara á­hrif á ís­lensku flug­fé­lögin. Í gær þurfti að af­lýsa 25 brott­förum vegna vinnu­stöðvunar flug­um­ferða­stjóra en 23 þeirra voru á vegum Play eða Icelandair.

Hluta­bréfa­verð Síldar­vinnslunnar hækkaði um 2% í dag í 370 milljón króna veltu en gengi fé­lagsins hefur verið á mikilli upp­leið eftir upp­gjör þriðja árs­fjórðungs en út­gerðar­fyrir­tækið hagnaðist um 9 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins.

Ís­lands­banki hækkaði einnig um tæp 2% í 377 milljón króna veltu og var dagsloka­gengi bankans 108 krónur. Hluta­bréfa­verð Ís­lands­banka hefur nú hækkað um 8% síðast­liðinn mánuð en lækkað um 5% á árinu.

Brim leiddi lækkanir í Kaup­höllinni og fór gengi fé­lagsins niður um rúm 2% í 176 milljón króna veltu en hluta­bréf í Brim hafa hækkað tölu­vert á síðustu vikum. Á síðast­liðnum mánuði hefur gengi Brims hækkað um 20% þrátt fyrir lækkun síðustu þrjá við­skipta­daga.

Úr­vals­vísi­talan hækkaði um 0,8% og var heildar­velta á markaði 3,2 milljarðar.