Úrvalsvísitalan hefur lækkað um meira en eitt prósent í 1,3 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Flugfélögin tvö, Icelandair og Play, leiða lækkanir.

Hlutabréfaverð Icelandair hefur lækkað um 2,7% í rúmlega hundrað milljóna króna veltu og stendur nú í 1,64 krónum á hlut. Gengi Icelandair hefur nú lækkað um 13% frá byrjun mánaðarins.

Þá stefnir í að hlutabréf Play lækki áttunda daginn í röð en gengi félagsins hefur fallið um 2,2% í 31 milljónar króna viðskiptum á First North-markaðnum. Hlutabréfaverð Play stendur nú í 13,2 krónum á hlut en félagið náði sínu lægsta dagslokagengi frá skráningu í 13,5 krónum í gær.

Þá hafa hlutabréfverð Ölgerðarinnar lækkað um 2,4% í meira en hundrað milljóna veltu í dag og stendur nú í 10,3 krónum. Gengi félagsins hefur ekki verið lægra síðan í byrjun september.

Meðal annarra félaga sem hafa lækkað um meira en eitt prósent í dag eru Marel, Íslandsbanki, Arion banki, og Kvika banki.