Hlutabréfaverð Icelandair og Play hefur hækkaði í fyrstu viðskiptum dagsins en bæði félög birtu farþegatölur eftir lokun markaða í gær.
Síðasta ár reyndist flugfélögunum erfitt á markaði en þrátt fyrir öflugar farþegatölur yfir sumartímann hafði hækkandi olíuverð, jarðhræringar og verkföll flugumferðastjóra neikvæð áhrif á félögin seinni hluta árs.
Icelandair og Play færðu bæði afkomuspá sína niður á haustmánuðum en horfur fyrir árið 2024 líta ögn betur út. Samkvæmt tilkynningu Play til Kauphallarinnar í gær hefur eftirspurn „tekið hressilega við sér.“
„Nú má sjá sterkar vísbendingar um að félagið muni ekki finna fyrir þessum neikvæðu áhrifum til lengri tíma því eftirspurnin hefur á fyrstu dögum ársins tekið hraustlega við sér sem er afar jákvætt fyrir bókunarstöðu félagsins fyrir sumarið og komandi misseri,“ segir í tilkynningu Play.
Hlutabréf í Icelandair hafa hækkað um 2% í morgun í 125 milljón króna veltu en gengi félagsins hefur hækkað um 14% síðastliðinn mánuð.
Hlutabréf í Play hafa hækkað um 3% í viðskiptum dagsins og 15% síðastliðinn mánuð en gengi félagsins fór í sitt lægsta gildi frá skráningu síðastliðið haust.