Hluta­bréfa­verð Icelandair og Play hefur hækkaði í fyrstu við­skiptum dagsins en bæði fé­lög birtu far­þega­tölur eftir lokun markaða í gær.

Síðasta ár reyndist flug­fé­lögunum erfitt á markaði en þrátt fyrir öflugar far­þega­tölur yfir sumar­tímann hafði hækkandi olíu­verð, jarð­hræringar og verk­föll flug­um­ferða­stjóra nei­kvæð á­hrif á fé­lögin seinni hluta árs.

Icelandair og Play færðu bæði af­komu­spá sína niður á haust­mánuðum en horfur fyrir árið 2024 líta ögn betur út. Sam­kvæmt til­kynningu Play til Kaup­hallarinnar í gær hefur eftir­spurn „tekið hressi­lega við sér.“

„Nú má sjá sterkar vís­bendingar um að fé­lagið muni ekki finna fyrir þessum nei­kvæðu á­hrifum til lengri tíma því eftir­spurnin hefur á fyrstu dögum ársins tekið hraust­lega við sér sem er afar já­kvætt fyrir bókunar­stöðu fé­lagsins fyrir sumarið og komandi misseri,“ segir í til­kynningu Play.

Hluta­bréf í Icelandair hafa hækkað um 2% í morgun í 125 milljón króna veltu en gengi fé­lagsins hefur hækkað um 14% síðast­liðinn mánuð.

Hluta­bréf í Play hafa hækkað um 3% í við­skiptum dagsins og 15% síðast­liðinn mánuð en gengi fé­lagsins fór í sitt lægsta gildi frá skráningu síðast­liðið haust.