Um 1.000 flugmenn hjá SAS hafa boðað til verkfalls eftir 14 daga, sama dag og skólum lýkur og fjölskyldufólk fer í ferðalag. Verkfallið gæti kostað flugfélagið 70 milljónir danskra króna á dag, jafnvirði 1,3 milljarða króna, samkvæmt Börsen.
Ástæða verkfallsins eru dótturfélögin SAS Connect og SAS Link en þar er SAS að draga úr kostnaði með því að ráða starfsmenn á lægri kjörum en hjá móðurfélaginu. Verkalýðsfélög flugmanna eru afar ósátt við þetta, vilja að starfsaldur gildi við endurráðningar og sömu kjör gildi og fyrir Covid-19.
Ef til verkfallsins kemur þá fellur niður um þriðja hvert flug frá Kaupmannahafnarflugvelli á verkfallstímanum. Greiningaraðilar sem blaðið ræddi við eru þó trúaðir á að hægt verði að koma í veg fyrir verkfall. Hagsmunir bæði félagsins og flugmanna séu einfaldlega of miklir.
Sænsk stjórnvöld ætla ekki að leggja meira fé í SAS
SAS er enn einu sinni lent í fjárhagsvandræði. Félagið þarf sækja sér 6,7 milljarða danskra króna í hlutafé eða 124 milljarða íslenskra króna.
Mikill taprekstur undanfarið, m.a. vegna Covid-19, hefur gert það að verkum að nú segjast stjórnendur félagsins þurfa að skera niður um 5 milljarða danskra króna, um 97 milljarða íslenskra króna. Þeir muni meðal annars leggja mikla áherslu á sjálfvirknivæðingu í rekstrinum líkt og svo mörg fyrirtæki með þungan launakostnað.
Stjórnendur félagsins segja að kjarasamningar félagsins geri það að verkum að starfsmaður sem fær greitt fyrir 185 klukkustundir í mánuði vinni aðeins sem nemur 145 klukkustundum. Þetta er kunnugleg umræða frá endurskipulagningu Icelandair, þar sem félagið og stéttarfélög sömdu um meira vinnuframlag fyrir hlutarfjáraukningu í félaginu.
Sænska ríkisstjórnin ætlar ekki að leggja félaginu til meira fé en á síðustu tveimur áratugum hefur sænska ríkið lagt félaginu til 8 milljarða sænskra króna, 104 milljarða íslenskra króna.
Dönsk stjórnvöld ætla að taka ákvörðun um hvort danskir skattgreiðendur leggi félaginu til fé í næstu viku.
Gengið hrunið
Síðustu vikuna hefur gengi félagsins lækkað um 20,68% en síðasta árið hefur það lækkað um 70,19%.