Flugvirkjar United Airlines hafa kosið gegn samningstillögu flugfélagsins en viðræður hafa staðið yfir um fyrirhugað samkomulag. Á vef WSJ segir að viðræður um nýjan samning muni þó halda áfram.
Að sögn stéttarfélagsins Teamsters greiddu alls 99,5% flugvirkja sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni gegn tillögunni.
Teamsters eru eitt af stærstu stéttarfélögum í Bandaríkjunum og eru með rúmlega 1,3 milljónir starfsmanna í Bandaríkjunum, Kanada og Púertó Ríkó. Sean O‘Brien, forseti Teamsters, segir að flugvirkjarnir vilji senda skýr skilaboð sem United geti ekki hunsað.
„Forráðamenn United Airlines halda að þeir geti neytt 10 þúsund tæknimenn til að samþykkja hræðilegan samning,“ segir Sean sem telur að tillagan hafi verið dauðadæmd alveg frá byrjun.