Kínverska ríkisstjórnin hefur heitið því að rannsaka ásakanir um að eldsneytisflutningabílar hafi verið notaðir til að flytja matarolíu án þess að hafa verið hreinsaðir á milli flutninga.

Samkvæmt ríkisreknum fjölmiðlum voru bílarnir notaðir til að flytja spilliefni og eftir að hafa verið tæmdir voru tankarnir fylltir af matarolíu og sírópi. Vinnubrögðin voru sögð vera svo algeng að þau voru talin opið leyndarmál innan flutningageirans.

Málið hefur vakið mikla reiði meðal almennings í Kína og er ekki í fyrsta sinn sem mataröryggismál rata í fjölmiðla. Eitt frægasta dæmið var mjólkurskandallinn árið 2008 þar sem fyrirtækið Sanlu hafði sett eitrað melamín í þurrmjólk sem ætluð var ungbörnum.

Yfir 1.300 kínversk börn voru greind með nýrnasteina og minnst sex létust. Tveir háttsettir yfirmenn innan fyrirtækisins fengu dauðadóm og voru teknir af lífi árið 2009. „Þetta er mun verra en Sanlu-málið. Það er ekki hægt að útkljá þetta mál með aðeins einni yfirlýsingu,“ segir einn notandi á samfélagsmiðlinum Weibo.

Flutningatankar í Kína eru ekki bundnir við eina tiltekna vörutegund og geta því þannig séð borið matvæli beint eftir að hafa flutt kolaolíu. Þó nokkur kínversk fyrirtæki eru sögð eiga aðild að þessu máli, þar á meðal dótturfélag ríkisrekna fyrirtækisins Sinograin, Hopefull Grain og Oil Group Sinograin.

Fyrirtækin segja að þau muni tafarlaust stöðva notkun allra vörubíla sem hafa brotið gegn reglum. Þá hafa stjórnvöld lofað að refsa öllum fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa tekið þátt í málinu.