Icelandair hefur ákveðið að hefja flug til Nashville í Bandaríkjunum fimm vikum fyrr en ráðgert var. Fyrsta flugið verður 10. apríl á næsta ári og verður flogið fjórum sinnum í viku út október 2025.

Nashville er átjándi áfangastaður Icelandair í Norður-Ameríku en borgin er oft nefnd tónlistarborgin, enda höfuðborg kántrítónlistar. Borgin er ekki síður fræg fyrir popp, rokk, gospel og jasstónlist.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá þær frábæru viðtökur sem við höfum fengið við Nashville-fluginu, frá Íslendingum, jafnt sem viðskiptavinum okkar beggja vegna Atlantshafsins,“ segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair.