Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa undirritað þriðja samkomulag um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Í hinu nýja samkomulagi felst varanleg tilfærsla fjármuna sem nema 5 milljörðum króna árlega frá ríki til sveitarfélaga „í því skyni að gera þeim kleift að ná settum afkomu- og skuldamarkmiðum þeirra í gildandi fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027“.

Þessi tilfærsla fjármuna er framkvæmd með því móti að útsvarsprósenta sveitarfélaga og hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvarinu hækkar um 0,22% en tekjuskattsprósentur ríkisins lækka í sama mæli.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að tekjur málaflokksins námu um 25 milljörðum króna árið 2020. Það sé meira en tvöföldun á tekjunum samanborið við það sem gert var ráð fyrir þegar sveitarfélögin tóku við málaflokknum árið 2011.

Hins vegar námu útgjöld til málaflokksins um 34 milljörðum árið 2020. Það sé meira en þreföldun á útgjöldum frá upphafi yfirfærslunnar.

„Ekki liggur fyrir fullnægjandi greining á orsökum þeirrar útgjaldaþróunar sem átt hefur sér stað í rekstri þjónustu við fatlað fólk á undanförnum árum. Aðilar samkomulagsins eru sammála um að ljúka slíkri greiningarvinnu í starfshópi ríkis og sveitarfélaga sem skipaður var sl. sumar í þeim tilgangi og er enn að störfum.“

Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar segir að í mörgum sveitarfélögum sé rekstrarafkoma í „ágætu jafnvægi eða nærri því“ þótt halli teljist vera á málaflokki fatlaðra þegar miðað er einvörðungu við þær tekjur sem honum voru eyrnamerktar upphaflega og litið er fram hjá aukningu annarra tekna.

Útgjaldavöxtur málaflokksins fyrir sveitarstjórnarstigið í heild sé þó orðinn það umfangsmikill að það kynni að raska þeim megin markmiðum um þróun afkomu og skulda sem gert var samkomulag um í aðdraganda gildandi fjármálaáætlunar fyrir árin 2023-2027.

Tóku við málaflokknum fyrir 12 árum

Í árslok 2010 gengu ríki og sveitarfélög frá samkomulagi um að sveitarfélögin tækju við þjónustu og ábyrgð á málaflokki fatlaðs fólks. Tilfærsla þjónustunnar átti sér stað þann 1. janúar 2011 og með þjónustunni fylgdu bæði fjármögnun með varanlegri hækkun á útsvarstekjum og tímabundin bein framlög úr ríkissjóði sem standa áttu undir kostnaði sveitarfélaganna af yfirfærslunni.

Tekjur sveitarfélaganna sem standa áttu undir þjónustunni voru áætlaðar 10,7 milljarðar og voru tryggðar með hækkun á útsvarshlutfalli sveitarfélaga um 1,20% gegn samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins. Þar af fóru 0,25% af útsvarshlutfallinu beint til sveitarfélaga en 0,95% fór í gegnum úthlutunarkerfi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Auk þess afhenti ríkið allt húsnæðið sem starfsemin fór fram í hún en áætlað virði þess er um 6 milljarðar á núverandi verðlagi.

Í árslok 2015 var gengið frá nýju samkomulagi um fjárhagsramma um fjármögnun þjónustunnar. Í því fólst annars vegar í að hækkun útsvar til sveitarfélaga vegna reksturs málaflokksins sem rennur í Jöfnunarsjóðinn var aukin um 0 0,95% í 0,99%. Hins vegar var viðmið um árlegt framlag ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna málaflokksins hækkað um 0,235% af innheimtum skatttekjum ríkisins.