Sala á óáfengum bjór undir merkjum Thrive hófst hér á landi fyrir nokkrum vikum. Belgísku framleiðendurnir halda því fram að bjórinn, sem fór fyrst í almenna sölu fyrir þremur árum, sé sá hollasti í heimi.
„Þetta er mjög léttur belgískur IPA-bjór. Framleiðendunum hefur tekið vel að bæta við hollu innihaldsefni án þess að tapa eiginleikum bjórsins. Þú finnur ekki próteinbragð eða neitt slíkt. Þetta er algjör nýjung, það er ekkert líkt þessu til í heiminum,“ segir Jovan Kujundzic.
Hann stofnaði Heru heildsölu, sem er umboðsaðili Thrive á Íslandi, með vini sínum Adrien Eiríki Skúlasyni í byrjun árs. Bjórinn er þegar kominn í sölu í Krónunni, hjá Hreyfingu, Hilton Reykjavík Spa, Hjá Höllu, Tennishöllinni og Málinu í HR.
Heildsalan stefnir á að fjölga sölustöðum hægt og rólega en þeir hafa hingað til einblínt á að ná til heilsutengdra sölustaða. Þeir sjá fyrir sér að bjórinn fari t.d. í sölu í golfskálum og á Crossfit-stöðum. Þá má nefna að þeir hafa einnig byrjað að selja til nokkurra skrifstofa. Undanafarið hafa vinirnir verið með kynningar, þar á meðal í Krónunni.
„Yfirleitt hefur fólkið sem kemur til okkar hikað í fyrstu – er efins hvort þetta bragðist vel. Það hefur svo komið langflestum á óvart hvað þetta er góður og léttur bjór,“ segir Jovan.
Fyrsti bjórinn sem hjálpi við endurheimt
Thrive gefur út tvo bjóra. Annars vegar er það Peak sem inniheldur 10 grömm af próteini en hann á að geta hjálpað við endurheimt eftir ákefð. Thrive segir að þetta sé fyrsti bjórinn í heimi sem aðstoði neytendum veið endurheimt (e. recovery).
Hins vegar býður belgíski framleiðandinn upp á Play bjórinn sem er sagður hollasti bjór í heimi. Play, sem er 65 kaloríur, inniheldur tíu ólík vítamín, þar á meðal D3 vítamín og öll B-vítamín.
„Þetta er bæði bjór fyrir íþróttafólk en líka fyrir þau sem vilja bara hollan bjór sem bragðast vel. Thrive einblínir mikið á að ná til íþróttafólks og eru með nokkra ólympíufara á samningi. Við lítum aðallega á þetta sem stemningsvöru, t.d. beint eftir æfingar eða í lok vinnudags.“
Fjallað er nánar um Heru heildsölu og Thrive bjórinn í Viðskiptablaðinu sem kom út á þriðjudaginn. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér.