Fjár­mála­eftir­lit Seðla­banka Ís­lands hefur samþykkt að Skagi fari með virkan eignar­hlut í Ís­lenskum verðbréfum hf. og ÍV sjóðum hf.

Samþykki FME var síðasti fyrir­varinn við kaup Skaga á um 97% hluta­fjár í Ís­lenskum verðbréfum sem til­kynnt var um í vor.

Áður hafði Sam­keppnis­eftir­litið ekki talið for­sendur til þess að aðhafast vegna sam­runa félaganna.

Þegar til­kynnt var um kaupin var horft til þess að í kjölfarið verði farið í kaup hluta­fjár annarra hlut­hafa þannig að Skagi verði einn eig­andi alls hluta­fjár í Ís­lenskum verðbréfum.

Kaup­verð 97,07% hluta­fjár í Ís­lenskum verðbréfum er 1.598 milljónir króna.

Gert er ráð fyrir að kaup­verðið verði greitt með reiðufé, en Skagi hefur val um að greiða allt að fjórðung kaup­verðsins með af­hendingu nýs hluta­fjár í Skaga.

Sam­kvæmt kaup­hallar­til­kynningu er unnið að frá­gangi kaupanna og horft er til þess að sú vinna klárist á næstu dögum.

Haraldur Þórðar­son, for­stjóri Skaga, sagði í vor að kaupin styrktu stöðu Skaga á sviðum eignastýringar og markaðsvið­skipta.

„Sam­stæða Skaga er nú þegar með öflugan rekstur á svæðinu en kaupin eru mikilvægt skref í frekari upp­byggingu fyrir norðan. Ís­lensk verðbréf hafa í hátt í fjóra ára­tugi boðið upp á framúr­skarandi þjónustu á sviði eignastýringar og mun halda því áfram innan sam­stæðu Skaga,“ sagði Haraldur.

„Eignir í stýringu hjá Skaga munu nema um 220 milljörðum króna eftir við­skiptin og við færumst því nær langtíma­mark­miðum okkar um vöxt á ís­lenskum fjár­mála­markaði. Við erum líka stolt af því að fram­boð sjóða hjá Skaga eykst um­tals­vert eftir kaupin. Við höfum metnaðar­full mark­mið um vöxt á ís­lenskum fjár­mála­markaði og kaupin eru mikilvægur áfangi í þeirri veg­ferð,“ sagði Haraldur í vor.