Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur samþykkt að Skagi fari með virkan eignarhlut í Íslenskum verðbréfum hf. og ÍV sjóðum hf.
Samþykki FME var síðasti fyrirvarinn við kaup Skaga á um 97% hlutafjár í Íslenskum verðbréfum sem tilkynnt var um í vor.
Áður hafði Samkeppniseftirlitið ekki talið forsendur til þess að aðhafast vegna samruna félaganna.
Þegar tilkynnt var um kaupin var horft til þess að í kjölfarið verði farið í kaup hlutafjár annarra hluthafa þannig að Skagi verði einn eigandi alls hlutafjár í Íslenskum verðbréfum.
Kaupverð 97,07% hlutafjár í Íslenskum verðbréfum er 1.598 milljónir króna.
Gert er ráð fyrir að kaupverðið verði greitt með reiðufé, en Skagi hefur val um að greiða allt að fjórðung kaupverðsins með afhendingu nýs hlutafjár í Skaga.
Samkvæmt kauphallartilkynningu er unnið að frágangi kaupanna og horft er til þess að sú vinna klárist á næstu dögum.
Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, sagði í vor að kaupin styrktu stöðu Skaga á sviðum eignastýringar og markaðsviðskipta.
„Samstæða Skaga er nú þegar með öflugan rekstur á svæðinu en kaupin eru mikilvægt skref í frekari uppbyggingu fyrir norðan. Íslensk verðbréf hafa í hátt í fjóra áratugi boðið upp á framúrskarandi þjónustu á sviði eignastýringar og mun halda því áfram innan samstæðu Skaga,“ sagði Haraldur.
„Eignir í stýringu hjá Skaga munu nema um 220 milljörðum króna eftir viðskiptin og við færumst því nær langtímamarkmiðum okkar um vöxt á íslenskum fjármálamarkaði. Við erum líka stolt af því að framboð sjóða hjá Skaga eykst umtalsvert eftir kaupin. Við höfum metnaðarfull markmið um vöxt á íslenskum fjármálamarkaði og kaupin eru mikilvægur áfangi í þeirri vegferð,“ sagði Haraldur í vor.