Fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að sekta Símann um 76,5 milljónir króna á grundvelli þess að stofnunin taldi að Síminn hefði ekki birt ætlaðar innherjaupplýsingar eða tekið ákvörðun um frestun á birtingu á ætluðum innherjaupplýsingum þann 31. ágúst 2021, í tengslum við mögulega sölu á Mílu.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar segist Síminn ætla að skjóta málinu til dómstóla
Síminn segist hafa upplýst markaðinn opinberlega að eigendabreyting á Mílu kæmi til greina auk þess sem upplýst hafi verið um að félagið myndi ræða við valda aðila. Fjárfestum hefði því mátt vera ljóst að það væri mögulegt að Míla yrði síðar seld.
„Síminn er eðlilega ósammála stofnuninni að á þeim tíma hafi verið til staðar innherjaupplýsingar og telur að fjárfestum hafi verið haldið upplýstum um ferlið með fullnægjandi hætti, m.a. með opinberri tilkynningu til kauphallar þann 31. ágúst 2021,“ segir í tilkynningu Símans.
„Þar sem Síminn leit svo á að engum innherjaupplýsingum hafi verið til að dreifa þann 31. ágúst 2021, enda höfðu engin bindandi tilboð borist í félagið á þeim tíma, gat félagið af augljósum ástæðum ekki tekið afstöðu til frestunar upplýsinganna.“
Umrædd tilkynning Símans þann 31. ágúst 2021 var birting á uppgjöri fyrir annar ársfjórðung 2021. Í afkomutilkynningunni sagði Síminn að framtíðarmöguleikar Mílu sem sjálfstæðs félags væru til skoðunar, undir handleiðslu fjárfestingarbankans Lazard og Íslandsbanka. Síminn sagði eigendabreytingar á Mílu koma til greina en að á þeim tímapunkti hefði ekkert verið ákveðið í þeim efnum.
Þann 18. október 2021 tilkynnti Síminn um að félagið hefði skrifað undir samkomulag við franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian um einkaviðræður og helstu skilmála í tengslum við mögulega sölu Símans á dótturfélaginu Mílu.
Eftir langt samþykktarferli hjá Samkeppniseftirlitinu seldi Síminn Mílu til Ardian haustið 2022. Heildarvirði Mílu í viðskiptunum nam að lokum 69,5 milljörðum króna.