Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval Útsýn, segir að það hafi verið mikið að gera hjá fyrirtækinu undanfarna daga og vikur við að hjálpa sólarþyrstum Íslendingum sem hafa fengið sig fullsadda af gulum viðvörunum.

Hún segir að skrifstofan hafi til að mynda opnað aftur fyrir golfferðir en tímabil golfferða er yfirleitt búið á þessum tíma árs.

„Það er skemmtilegt að sjá hversu margir eru að skella sér í fleiri golfferðir. Það er náttúrulega ekkert gaman að spila golf í hvössu veðri með ullarhúfur og vettlinga. Þannig við ákváðum að opna á þær ferðir og getur fólk því skellt sér til Spánar eða Ítalíu að spila.“

Þórunn bætir við að margir hafi verið að taka ákvarðanir nánast samdægurs og segir að breyting lána hjá fólki og endurgreiðsla frá skattinum eigi að öllum líkindum sinn þátt í þróuninni líka.

„Fólk hefur stundum verið að bóka á miðnætti fyrir morgunflugið daginn eftir. Þá erum við að tala um alvöru tíu til tólf daga ferðir. Ferðahegðun Íslendinga hefur vissulega breyst í gegnum tíðina og hafa sumir bókað langt fram í tímann og aðrir skyndilega. Hins vegar erum við að sjá núna óvenjulega mikið af fólki sem stekkur á ferðir því það er búið að fá nóg af veðrinu.“

Sem ferðaþjónusta segir Þórunn að starfsfólk Úrval Útsýnar sé einnig ánægt með hversu margir komi á skrifstofuna sjálfa til að bóka sér ferðir. Hún segir að undanfarna daga hafi skrifstofan litið út eins og verslun á tilboðsdegi.

„Þegar þú ert að kaupa þér flug og gistingu þá er best að leita sér að góðri þjónustu. Margir Íslendingar sem bókuðu til dæmis hjá erlendum netsíðum í Covid töpuðu á því en sem ferðaskrifstofa þá borguðum við allt til baka og voru allir tryggðir langt fram í tímann.“