Wolt hefur nú verið starfrækt á Íslandi í meira en eitt og hálft ár og að sögn fyrirtækisins hafa hátt í 150 þúsund manns sótt smáforrit þess hér á landi. Wolt er þá komið í samstarf við 440 sölustaði í Reykjavík, Reykjanesbæ, Selfossi og á Akureyri.
Jóhann Már Helgason, forstöðumaður viðskiptastýringar Wolt á Íslandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hátt í 550 sendlar starfi nú hjá fyrirtækinu sem nái til 70% þjóðarinnar.
Wolt segist stefna á áframhaldandi vöxt á Íslandi en bætir við að fyrirtækið líti fyrst og fremst á sig sem tæknifyrirtæki sem tengir saman fólk við veitinga- og smásölu. Að sögn Jóhanns tekur fyrirtækið á móti 2.500 til 5.500 pöntunum á dag.
„Stefna okkar þegar við tókum til starfa á Íslandi var að sjá fyrst um að dekka veitingabransann. Þaðan vildum við fara yfir í að senda frá matvöruverslunum og svo erum við með lokamarkmið sem er að fólk verði með alla Kringluna í vasanum.“
Jóhann segir að fyrirtækið vonist til að fólk hugsi um Wolt þegar það hugsar um heimsendingar og að það verði hægt að panta allt mögulegt í gegnum smáforritið. Wolt hafi þegar sýnt getu sína á íslenskum markaði og á sama tíma hafi það hjálpað veitingastöðum að vaxa.
„Það eru til veitingastaðir eins og 2Guys og Arabian Taste sem hafa vaxið gríðarlega mikið með því að notast við Wolt. Margir notendur ákveða kannski að prufa hina og þessa veitingastaði sem hefðu öðruvísi ekki heimsótt þá.“
Mikill vöxtur á skömmum tíma
Wolt var stofnað árið 2014 í Finnlandi og tveimur árum seinna var það komið til Svíþjóðar og Eistlands. Fyrirtækið hélt áfram að vaxa en þegar Covid skall á varð sprengja hjá sendlafyrirtækjum víðs vegar um heiminn.
Árið 2023 kom Wolt til Íslands en í dag starfar fyrirtækið úti um allan heim, þar á meðal í löndum eins og Úsbekistan og Ísrael. Wolt endaði í eigu DoorDash árið 2022 en DoorDash er meðal annars skráð í bandarísku kauphöllina.
„Wolt var fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar á Íslandi sem bauð upp á alhliða þjónustu. Við erum til dæmis núna með 41 starfsmann og höfum meðal annars ráðið íslenska námsmenn í Ósló til að vinna í þjónustuveri fyrirtækisins fyrir íslenska notendur.“
Hann bætir við að tala þeirra notenda sem hafa gerst áskrifendur að Wolt+ sé mun fleiri, hlutfallslega séð, á Íslandi en í öðrum löndum. „Við erum bara mjög stolt af þessu framboði og erum hvergi nærri hætt.“
Misskilningar í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum
Frá því Wolt tók til starfa á Íslandi hafa ýmsar umræður farið í flug um starfsemi fyrirtækisins og þá sérstaklega í tengslum við réttindi og laun sendla. Wolt hefur til að mynda verið sakað um að nýta sér einstaklinga í berskjaldaðri stöðu.
Sviðstjóri og sérfræðingur hjá lögfræði- og vinnumarkaðssviði ASÍ sögðu síðasta sumar að Wolt væri að slá met í ábyrgðar- og skeytingarleysi í máli tuttugu einstaklinga sem kærðir voru fyrir að starfa hjá fyrirtækinu án atvinnuréttinda.
Christian Kamhaug, upplýsingafulltrúi Wolt fyrir Noreg, Ísland og Lúxemborg, furðaði sig á umræðunni og sagði að enginn hefði haft samband við fyrirtækið vegna málsins.
„Mér finnst mjög skrýtið að sjá hversu margir blaðamenn taka það að sér að skrifa fréttir um þetta mál án þess að hafa samband við okkur. Í Noregi væru slík vinnubrögð til að mynda óhugsandi,“ sagði Christian á sínum tíma í samtali við Viðskiptablaðið.
Hann segir að Wolt notist nú við andlitsgreiningarkerfi í smáforriti sínu sem geti sannreynt hvort umræddur sendill sé raunverulega sá sem er með samning hjá Wolt. „Sem fyrirtækið njótum við ekki góðs af ólöglegri deilingu samninga þar sem misnotkun á fólki og skerðing á þjónustu getur átt sér stað.“
Wolt þvertekur einnig fyrir að notast við reiknirit sem annaðhvort verðlaunar eða lastar sendlum eftir því hversu lengi þeir taka í hverri sendingu. Starfsvettvangur fyrirtækisins sé opið markaðstorg og fá sendlar jafnframt fullt frelsi til að velja eða hafna pöntunum.
„Það eru margir sem halda að þetta 399 króna sendingargjald séu launin sem sendlarnir fá og það er alls ekki rétt. Hver og einn sendill starfar sem verktaki og þénar rúmlega sex þúsund krónur fyrir hverja virka klukkustund. Jafnvel þegar það er lítið að gera og sendill er mögulega að lesa fyrir próf meðan hann bíður eftir pöntun þá eru meðallaunin í kringum 3.500 krónur á tímann, eða um 60% hærra en lágmarkslaun.“