Stacey Katz, sem tók nýlega við sem fjármálastjóri Marel, flutti til Íslands fyrir ellefu árum síðan þrátt fyrir að hafa staðið tvenn atvinnutilboð til boða í London. Íslandi hefur alla burði til að laða til sín fjölda erlendra sérfræðinga að hennar sögn.

Stacey kemur frá New York og stundaði þar nám við Cornell háskólann en tók eina önn í skiptinámi í Kaupmannahöfn. Henni líkaði vel að búa á Norðurlöndum og sá fyrir sér að flytja til Evrópu seinna meir. Eftir að hafa unnið hjá PwC í New York um nokkra hríð vildi hún breyta til og horfði þá sérstaklega til London.

Um sama leyti var Iceland Express með útsölu á flugi til Íslands og ákvað Stacey því að skella sér hingað til lands og ferðast. Rétt fyrir heimferð hafði hún samband við PwC hér á landi og fór í viðtal. Að lokum stóð hún uppi með atvinnutilboð frá PwC á Íslandi sem og tvö önnur í London.

„Ég ákvað að flytja til Íslands þvert á ráðleggingar allra sem ég leitaði til, sem mæltu allir frekar með London.“

Fjölbreytnin heillandi

Stacey hóf störf hjá PwC á Íslandi árið 2011 og fékkst þar bæði við ráðgjafar- og endurskoðunarstörf fyrir alþjóðleg fyrirtæki á borð við Actavis, Alcoa Fjarðaál, Norðurál og CCP. Að takast á við fjölbreytt verkefni hjá fyrirtækjum í hinum ýmsu geirum var henni heillandi.

„Það er mikil áhersla á sérfræðiþekkingu í Bandaríkjunum. Að loknu háskólanámi er maður strax settur í mjög sérhæfð verkefni, t.d. endurskoðun á skráðum verðbréfasjóðum. Maður þurfti þannig að sérhæfa sig alveg frá upphafi. Á Íslandi fær maður aftur á móti almennt tækifæri til að starfa á breiðara sviði, við mjög fjölbreytt verkefni. Það þótti mér afar heillandi.“

Stacey hafði einungis ætlað að dvelja á Íslandi í fáein ár og sækja síðan nám við virtan háskóla erlendis. Hún ákvað hins vegar að skrá sig í MBA-nám í HR árið 2012 samhliða starfi sínu hjá PwC.

„Ólíkt því sem maður hefði upplifað í sambærilegu námi erlendis þá var ég þarna umkringd fjölbreyttum hópi einstaklinga úr ýmsum atvinnugreinum, þarna voru listamenn og meira að segja tamningamaður. Þetta var frábært því maður fékk aðra sýn á hlutina sem maður hefði hugsanlega ekki fengið í sambærilegu námi í Bandaríkjunum með einsleitari hóp.“

Þegar líða fór að lokum MBA-námsins ákvað hún að hvíla endurskoðandann í sér og íhugaði að snúa aftur á bandarískan vinnumarkað. Sessunautur hennar í MBA-náminu þekkti Árna Odd Þórðarson, sem hafði þá nýverið tekið við sem forstjóri Marel. Á körfuboltaleik hjá krökkunum þeirra sannfærði hann Árna Odd um að hann þyrfti að hitta Stacey, sem hann gerði og endaði hún í ráðningarferli hjá Marel fyrir rúmum átta árum síðan.

Ísland aðlaðandi fyrir sérfræðinga

Mikil umræða hefur verið um að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga til landsins. Stacey er gott dæmi um kosti þess að fá inn sérfræðinga. Spurð um þetta átak ríkisstjórnarinnar, þá segir Stacey að það sé mjög jákvætt.

„Það eru ákveðnar hindranir sem þarf að ryðja úr vegi og einfalda ferlið. Við viljum ekki að erlendir sérfræðingar þurfi að bíða í átta mánuði eftir starfsleyfi. Erlendir sérfræðingar eru eðli málsins samkvæmt eftirsóttir og geta unnið alls staðar í heiminum, þeir fara þá einfaldlega annað.“

Hún tekur þó fram að Ísland hafi alla burði til að blómstra og laða til sín fólk. Vinnuumhverfið sé aðlaðandi, m.a. hvað varðar kynjajafnrétti og tækifæri til að vaxa í starfi, auk þess sem valdastiginn hér sé ekki jafn heilagur og t.d. í Bandaríkjunum. Auðveldara sé fyrir starfsmenn að ræða við sína yfirmenn og láta rödd sína heyrast hér á landi.

Viðtalið við Stacey Katz má finna í heild sinni hér. Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 10. nóvember 2022.