Bandaríski bílaframleiðandinn Ford hefur tilkynnt þriggja milljarða dala fjárfestingu í verksmiðju sinni í suðurhluta Ontario í Kanada til að auka framleiðslu á pallbílum sínum.

Ford sagði í dag að F-Series pallbílarnir yrðu framleiddir í Oakville-verksmiðju fyrirtækisins í Toronto frá og með 2026.

Jim Farley, framkvæmdastjóri Ford, segir að þrátt fyrir framleiðslugetu hjá verksmiðjum fyrirtækisins í Ohio og Kentucky nái Ford ekki að anna eftirspurn eftir pallbílunum vinsælu.

Kanadísk stjórnvöld segja einnig að fjárfestingin sé sigur fyrir Ontario og Kanada en ríkisstjórnin þar hefur fjárfest mikið til að hvetja bílaframleiðendur til að gera héraðið að aðalstöð fyrir rafbílaframleiðslu.