Bandaríski bílaframleiðandinn Ford mun segja upp rúmlega þúsund starfsmönnum á næstunni. Uppsagnirnar eru sagðar tengjast þeim mikla kostnaði sem fyrirtækið hefur lagt í að fjárfesta í rafbílum.
Ford tilkynnti aðgerðirnar á stjórnarfundi fyrr í vikunni en stærsti hluti þeirra sem munu koma til með að missa vinnuna eru verkfræðingar sem vinna í verksmiðjum fyrirtækisins í Norður-Ameríku. Hátt í 28.000 starfsmenn vinna fyrir Ford í Norður-Ameríku.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ford tilkynnir slíkar uppsagnir en rúmlega 3.000 starfsmönnum var sagt upp síðasta sumar og hafa aðrar hópuppsagnir einnig átt sér stað í evrópskum verksmiðjum bílaframleiðandans.
Fyrirtækið hefur þegar sent tilkynningar til þeirra starfsmanna sem koma til með að missa stöður sínar og er þeim ráðlagt að vinna heima út vikuna. Uppsagnirnar koma einnig nokkrum vikum áður en Ford mun hefja samningsviðræður við United Auto Workers verkalýðsfélagið um nýjan fjögurra ára kjarasamning.
Ford áætlar að fyrirtækið komi til með að tapa 3 milljörðum dala á rafbílafjárfestingum sínum á þessu ári. Stjórnendur bílaframleiðandans hafa hins vegar sagt að sala bensínbíla muni koma til móts við rekstrartapið. Bandaríska orkumálaráðuneytið sagði einnig í síðustu viku að það myndi lána Ford 9,2 milljarða dali til að styðja við rafbílaframleiðslu fyrirtækisins.
Shawn Fain, forseti verkalýðsfélagsins, hefur gagnrýnt Ford harðlega og sagt að framleiðandinn hafi sýnt umtalsverðan hagnað ofan á stuðning frá bandaríska ríkinu. „Þessi fyrirtæki eru gríðarlega arðbær og munu halda áfram að græða hvort sem þau eru að selja bensínbíla eða rafbíla. Samt fá starfsmenn minni og minni bita af kökunni.“