Bandaríski bílaframleiðandinn Ford hefur verið í töluverðum vandræðum með rafbílaframleiðslu sína er kínverskir rafbílaframleiðendur hafa verið að hasla sér völl á markaðinum.
Samkvæmt Financial Times greindi Ford frá því í dag að fyrirtækið neyðist til að ráðast í hópuppsagnir en bílaframleiðandinn mun segja upp 3000 starfsmönnum í Þýskalandi og 800 í Bretlandi.
Um er að ræða um 14% af öllum starfsmönnum Ford í Evrópu sem eru um 28 þúsund talsins.
FT greinir frá því að samræður séu í gangi við stéttarfélög starfsmanna en verksmiðjur félagsins í Dagenham og Halewood sleppa við niðurskurðarhnífinn.
Ford greindi frá því í byrjun árs í fyrra að til stæði að segja upp um 3.800 starfsmönnum í Evrópu, þar af 1.300 starfsmönnum í Bretlandi.
„Þetta er erfið ákvörðun en við þurfum að ráðast í aðgerðir til að halda í samkeppnishæfni okkar á Evrópumarkaði,“ segir Dave Johnston, varaforstjóri Ford í Evrópu.