Bandaríski bílaframleiðandinn Ford ákvað fyrir helgi að stöðva útflutning á dýrum jeppum, sportbílum og pallbílum til Kína vegna nýhækkaðra tolla í stagmagnandi viðskiptastríði milli Donalds Trumps og Kína.
Samkvæmt fréttaflutningi WSJ stöðvaði fyrirtækið sendingar á F-150 Raptor-pallbílum, Mustang-bílum og Bronco-jeppum sem smíðaðir eru í Michigan. Sendingar á Lincoln Navigator-bílum, sem framleiddir eru í Kentucky, voru einnig stöðvaðar.
Kínversk stjórnvöld svöruðu nýlega tollahækkunum Donalds Trumps með sínum eigin tollum. Bandarískir bílar eins og F-150 Raptor, sem kostar um 100 þúsund dali í Kína, hafa nú fengið á sig 150% innflutningstoll.
Fyrirtækið hefur ekki selt mikið af bílum í Kína en starfsemi bílaframleiðandans þar í landi hefur engu að síður verið mjög arðbær fyrir Ford.
Ford byrjaði þá að senda nokkrar af sínum þekktustu bílategundum til Kína fyrir áratugi síðan. Á síðasta ári voru 5.500 Bronco-bílar, F-150, Mustang-bílar og Navigator-bílar sendir til Kína.