Úrskurður í ágreiningi aðila í máli Frigusar II gegn Lindarhvoli ehf. og íslenska ríkinu lá fyrir fyrr í vikunni. Á meðal ágreiningsatriða var sú krafa Frigusar II að vitnið Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður Lindarhvols og ríkisins, yrði látinn gefa skýrslu sem vitni áður en aðilaskýrslur í málinu færu fram, ella fengi hann ekki að vera viðstaddur þegar aðilar málsins gæfu skýrslur.
Ágreiningurinn snéri að því hvort Steinar Þór yrði látinn gefa skýrslu sem vitni áður en aðilaskýrslur færu fram í málinu eða á eftir skýrslutökum af málsaðilum, sem hann yrði þá jafnframt viðstaddur sem lögmaður ríkisins.
Dómari lagði til þá lausn að Steinar Þór gæfi skýrslu sem vitni áður en aðilaskýrslur færu fram við aðalmeðferð málsins. Þannig stæði ekkert því í vegi að hann yrði viðstaddur aðilaskýrslurnar. Frigus féllst á þessa tillögu en ríkið vísaði til þess að það væri meginregla í íslensku einkamálaréttarfari að vitni gæfu skýrslu á eftir aðilum máls.
Frigus vísaði til þess að fyrirkomulag á röðun í skýrslutökur sé engan veginn greypt í stein í lögum. „Bersýnilega þurfi hér sérhannað fyrirkomulag til að forða réttarspjöllum vegna stöðu lögmanns gagnaðila sem lykilvitnis, að hann gefi vitnaskýrslu á undan aðilaskýrslum, ætli lögmaðurinn sér að sitja þinghaldið sem slíkur,“ segir í úrskurðinum.
Niðurstaðan varð sú að Steinari Þór verði gert að gefa skýrslu sem vitni við aðalmeðferðina áður en aðrar skýrslutökur fari fram í málinu.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 10. nóvember.