Fjölmennur fundur Fagaðila í iðnaði, sem í eru framleiðendur, starfsmenn og áhugamenn íslensks handverks og framleiðslu, fordæmir harðlega það sem þeir kalla óforskömmuð vinnubrögð verkalýðshreyfingarinnar og þeirra aðila sem ganga að þeirra mati freklega framhjá innlendri framleiðslu við innflutning á fullbúnum húsum, innréttingum og húsgögnum hingað til lands.

Segir í yfirlýsingunni að það beri ekki heilindum þeirra gott vitni að forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar semji við erlenda aðila um innflutning á húsum, innréttingum og húsgögnum, á sama tíma og þeir eiga að standa vörð um innlenda framleiðslu, vernda störf, halda við kunnáttu í handverki og tryggja réttindi þeirra starfsmanna sem vinna þessi störfi.

Jafnframt er það sagt vera ekki sannfærandi vitnisburður um getu þeirra til að sinna þeim störfum sem þeim hefur verið falið. Staðreyndin sé að þeirra sögn sú að innlend framleiðsla stenst ekki aðeins erlendu framleiðslunni snúning hvað varðar gæði og útlit, heldur er mjög samkeppnisfær í verði og framleiðslutíma. Innlend verðmætasköpun er grunnur að hagsæld í okkar samfélagi, ekki undirboð erlendis frá á kostnað íslenskra starfa.

Í fréttatilkynningunni er neft sem skýrt dæmi um þessa svokölluðu ósvinnu, hvernig íbúðafélagið Bjarg, félag sem stofnað er af ASÍ og BSRB, hafi látið framleiða og flytja inn einingahús frá Lettlandi og borið fyrir sig að innlendir aðilar anni ekki því magni sem óskað sé eftir.

Þetta segir fréttatilkynningin vera alrangt og að fundurinn mótmæli það sem þeir kalla innihaldslausan og ósannan málflutning þeirra sem vinni með þessum hætti svo sterklega gegn hagsmunum launafólks í landinu að þeirra mati.

Málflutningur um fjölda erlendra iðnaðarmanna á Íslandi og getuleysi innlendra framleiðenda til framleiðslu, er sagður ekki vera samboðin þessum aðilum, enda viti þeir betur þó þeir kjósi að skýla sér á bak við rökleysu af þessu tagi eins og það er orðað.

Vinnubrögð verkalýðshreyfingarinnar og þeirra sem ganga með þessum hætti framhjá afar samkeppnishæfri innlendri framleiðslu er loks sagður áfellisdómur yfir þeim og lýsi vanhæfi þeirra og afskiptaleysi gagnvart iðnaðarmönnum hér á landi, fyrirtækjum og þeirri þekkingu sem hér er til staðar.  Hún sé eins og blaut tuska framan í andlit almennings á þeim tíma sem samstaða væri dýrmætari en sundurlyndi.