Eftir­lits­stofnun EFTA, ESA, réðst í fyrir­vara­lausa at­hugun hjá Skel á mánu­daginn en um er að ræða í þriðja sinn sem eftir­lits­stofnunin ræðst í slíka að­gerð og í fyrsta sinn sem slík að­gerð er fram­kvæmd á Ís­landi.

Rann­sókn af þessu tagi hjá ESA er einnig án for­dæma en við­fangs­efni rann­sóknarinnar er í engu sam­ræmi við um­fang að­gerðanna.

Um er að ræða að­gerð sem kostar að öllum líkindum mörg hundruð milljónir króna þar sem á annan tug ein­stak­linga frá Brussel eru hér á landi til að rann­saka meinta markaðs­skiptingu Lyfja­vals, sem er í eigu Skeljar, með því að loka hefð­bundnu apó­teki í Mjódd og ein­beita sér að því að starf­rækja bíla­lúgu­apó­tek.

Hin tvö skiptin sem ESA hefur ráðist í slíkar að­gerðir var farið í fyrir­vara­lausa at­hugun hjá norska fjar­skiptarisanum Telenor ASA og dóttur­fé­lagi þess í Noregi, Telenor Nor­ge AS.

Telenor er með skrif­stofur og starf­semi í sjö mis­munandi löndum en sam­kvæmt árs­reikningi Telenor ASA námu tekjur fé­lagsins um 80 milljörðum norskra króna í fyrra, sem sam­svarar um 1.014 milljörðum króna á gengi dagsins. Sekt ESA á Telenor nam 112 milljónum evra sem samsvarar um 17 milljörðum íslenskra króna.

Lyfja­val rekur sjö apó­tek á Ís­landi og þar af eru fimm með bíla­lúgu. Öll apó­tek Lyfja­vals eru þó einnig hefð­bundin apó­tek þar sem sam­kvæmt ís­lenskum reglum þarf að vera hægt að ganga inn í apó­tek. Þá er rétt að taka fram að starf­semi Lyfja­vals nær ekki út fyrir land­steinana eða inn á önnur markaðs­svæði innan EES.

Sam­kvæmt til­kynningu Skeljar snýr at­hugun ESA að fast­eigna­kaupum er Lyfja­val seldi verslunar­hús­næði í Mjódd til Lyf og heilsu og að því að eftir­litið telji að á Ís­landi sé tvenns konar markaður með apó­tek, annars vegar hefð­bundin apó­tek og síðan bíla­lúgu­apó­tek.

Við­skipta­blaðið ræddi við lög­menn sem starfa á sviði sam­keppnis- og evrópu­réttar sem telja að­gerðina veru­lega í­þyngjandi, sér í lagi vegna um­fangs málsins.

Ís­lenskir lög­menn sem hafa meðal annars starfað hjá EFTA segja að ESA láti sam­keppnis­mál vana­lega sig ekki varða nema stofnunin telji þau hafi ein­hver á­hrif á við­skipti milli landa.

Því var þó velt upp að mögu­lega, þó hæpið, sé að ESA telji markaðs­hlut­deild Lyfja­vals með sín fimm bíla­lúgu­apó­tek svo mikla að ó­mögu­legt sé fyrir er­lenda aðila að koma inn á markaðinn hér­lendis.

Í þessu sam­hengi er vert að nefna að sam­kvæmt árs­hluta­upp­gjöri Festi á fyrri árs­helmingi, sem ný­verið festi kaup á Lyfju sem rekur yfir tuttugu apó­tek hér­lendis, er stefnt að því að opna bíla­lúgu­apó­tek á næstu misserum.

Markaðssér­fræðingar telja að markaðs­hlut­deild Lyfju sé um 45% en auk þess rekur Festi 96 bensín­stöðvar hér­lendis þar sem hægt væri að starf­rækja slík apó­tek.

Hins vegar er ljóst að það eru stöðug og náin sam­skipti milli Sam­keppnis­eftir­litsins og ESA og töldu þeir lög­menn sem Við­skipta­blaðið ræddi við að það er alls ekki ó­lík­legt að á­bending eða beiðni um rann­sókn ESA hafi komið frá Sam­keppnis­eftir­litinu.

Sam­keppnis­eftir­litið reyndi að komast hjá laga­legum tíma­fresti sam­keppnis­laga til að rann­saka fast­eigna­kaupin og meintu markaðs­skiptinguna en á­frýjunar­nefnd sam­keppnis­mála skikkaði stofnunina til að ljúka málinu innan laga­legs frests í fyrra.

Það er því ekki ó­lík­legt miðað við heimildir Viðskiptablaðsins að eftir­litið hafi í kjöl­farið fengið er­lenda aðila til að hefja rann­sókn á málinu. Erlenda eftirlitsstofnunin fer síðan í fyrirvaralausa húsleit hérlendis án dóms­úr­skurðar líkt og stjórnar­skrá kveður á um.

Samkvæmt Samkeppniseftirlitinu er athugunin gerð á grundvelli EES samningsins og heimildar í 22. gr. samkeppnislaga, sem lögmenn sem Viðskiptablaðið hafði samband við telja að sé fremur óljós hvað varðar mál af þessu tagi.

Samkeppniseftirlitið tapaði fyrir á­frýjunar­nefnd

Upp­haf málsins má rekja til sam­runa­til­kynningar Lyfja­vals til Sam­keppnis­eftir­litsins í ágúst 2022 vegna við­skipta við Lyfja­val og Faxa ehf., sem fer með yfir­ráð Lyfja og heilsu hf.

Aðilarnir gerðu kaup­samning sín á milli um að Faxar keyptu fast­eign Lyfja­vals að Álfa­bakka, en kaup­verð eignarinnar var annars vegar greitt með peninga­greiðslu og hins vegar með fast­eign Faxa í verslunar­mið­stöðinni Glæsi­bæ að Álf­heimum.

Þá lá það jafn­framt fyrir að Lyf og heilsa hf., sem er með rekstur lyfja­verslunar undir firma­nafninu Apó­tekarinn, í fyrr­greindri fast­eign Faxa að Álf­heimum kæmi til með að hætta rekstri þeirrar lyfja­verslunar.

Hins vegar væri gert ráð fyrir að rekstur lyfja­verslunar Lyfja­vals í verslunar­mið­stöðinni Glæsi­bæ yrði ó­breyttur eftir við­skiptin.

Tíma­frestir eftir­litsins byrjuðu að líða í lok októ­ber 2022 og gaf eftir­litið út and­mæla­skjal í febrúar í fyrra vegna rann­sóknar málsins en þar kom fram að frum­mat stofnunarinnar væri það að fyrir­hugaðir sam­runar á grund­velli áður­nefnds kaup­samnings fælu í sér röskun á sam­keppni sem gæfi til­efni til þess að grípa til í­hlutunar.

Sam­keppnis­eftir­litið taldi kaup­samninginn bera með sér ein­kenni markaðs­skiptingar en á síðari stigum málsins taldi SKE að „grund­vallar­breyting“ hefði orðið á lýsingu sam­runa­aðila á eðli við­skiptanna.

Í ljósi þess á­kvað stofnunin að sam­runa­til­kynningar beggja aðila væru ó­full­nægjandi og af þeim sökum hefði tíma­frestur sam­kvæmt sam­keppnis­lögum ekki verið byrjaður að líða.

Lyfja­val mót­mælti því að breyting hefði orðið á eðli við­skiptanna og sagði þau hefðu engum breytingum tekið við með­ferð málsins.

Lyfja­val kærði á­kvörðun SKE til á­frýjunar­nefndar Sam­keppnis­mála um að hætta rann­sókn og komast hjá tíma­frestum til að af­greiða málið og dæmdi á­frýjunar­nefndin Lyfja­val í hag.

Á­frýjunar­nefndin sagði að það væri eðli­legt að Lyfja­val njóti þeirra réttinda sem stjórn­sýslu­lögin mæla fyrir um og sú á­kvörðun að hætta rann­sókn hefur þá þýðingu að fé­lagið fái ekki efnis­lega af­stöðu Sam­keppnis­eftir­litsins eins og mælt er fyrir um í sam­keppnis­lögum.

Á­frýjunar­nefndin skikkaði því Sam­keppnis­eftir­litið til að ljúka rann­sókn málsins innan þess tíma­frests sem sam­keppnis­lög kveða á um og byrjaði að líða í októ­ber 2022. Á­kvörðun eftir­litsins um að hætta rann­sókn var því dæmd ó­lög­mæt.

Það verður ekki annað séð en að SKE hafi ekki viljað una þeim tíma­frestum sem ís­lensk lög kveða á um og vilji til lengri tíma til að rann­saka málið. Þó að málið hafi verið leitt til lykta hér­lendis hefur SKE því séð leik á borði til að halda því á lofti hér­lendis með því að fara á svig við tíma­frest ís­lenskra laga og fengið ESA til að hefja rann­sókn á málinu.